Þarf pólitískan vilja til að ljúka viðræðunum

AFP

„Pólitískur vilji þarf að vera til staðar svo hægt sé að ljúka viðræðunum með árangursríkum hætti og leyfa Íslendingum að tjá afstöðu sína til inngöngu í þjóðaratkvæðagreiðslu,“ segir Cristian Dan Preda, sem heldur utan um umsókn Íslands um inngöngu í Evrópusambandið fyrir hönd utanríkisnefndar Evrópuþingsins, á heimasíðu evrópska þingflokksins European People's Party (EPP).

Er þar vísað til þeirrar ákvörðunar íslenskra stjórnvalda fyrr á þessu ári að hægja á viðræðunum um inngöngu í Evrópusambandið. Haft er eftir Preda að hann sé sáttur við það hvernig Icesave-deilan hafi farið og leggi ennfremur áherslu á að makríldeilan verði leyst sem allra fyrst. Þá segir að viðræðurnar um inngöngu Íslands í Evrópusambandið hafi gengið vel til þessa og 27 af 35 viðræðukaflar verið opnaðir. Þar af hafi 11 verið lokað til bráðabirgða.

„Hins vegar hefur verið sýnt fram á það að þeir sem óttuðust það fyrir þremur árum að Ísland myndi færast fram fyrir í röðinni og ganga í Evrópusambandið á undan Króatíu höfðu rangt fyrir sér,“ segir Preda. Innganga í sambandið byggi á því hversu fljótt ríki uppfylla skilyrði hennar og engar styttri leiðir séu í boði í þeim efnum.

Frétt á heimasíðu EPP

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert