Sjálfstæðisflokkurinn fær 29% fylgi samkvæmt nýrri skoðanakönnun Fréttablaðsins og Stöðvar 2 um fylgi flokkanna. Könnunin var gerð í gærkvöldi og fyrrakvöld.
Þetta er minna fylgi en flokkurinn mældist með í síðustu könnun, en flokkurinn er eftir sem áður stærsti flokkur landsins og fengi 21 þingmann kjörinn.
Könnunin staðfestir að Framsóknarflokkurinn er í mikilli uppsveiflu. Alls styðja 26,1% flokkinn og hefur stuðningurinn aukist um 5,3 prósentustig á einum mánuði. Hann fengi 19 menn kjörna á þing.
Samfylkingin mælist nú 12,8% sem er örlítið meira en í síðustu könnun. Flokkurinn fengi 9 þingmenn samkvæmt þessari könnun.
Fylgi við VG mælist 11,8% sem 4,4 prósentastigum meira en í síðustu könnun. Flokkur fær miðað við þetta fylgi 8 þingmenn.
Stuðningur við Bjarta framtíð mælist mun minna í þessari könnun en í síðustu könnunum eða 8,7%. Það myndi næga flokknum til að fá 6 þingmenn kjörna.
Aðrir flokkar fá minna fylgi og ná ekki manni á þing.