Þrjár síðustu skoðanakannanir sem birtar hafa verið í þessari viku sýna Framsóknarflokkinn á miklu flugi. Samkvæmt þeim öllum er flokkurinn nú með vel yfir 20% fylgi og hefur hann ekki mælst svo hár í könnunum árum saman. Athygli vekur talsvert mikið samræmi á milli þessara þriggja kannana.
Samkvæmt skoðanakönnun MMR sem birt var síðastliðinn þriðjudag er Framsóknarflokkurinn með 23,8% fylgi, 26,1% samkvæmt könnun Fréttablaðsins og Stöðvar 2 sem birt var í dag og 22% samkvæmt þjóðarpúls Capacents sem einnig var birtur í dag. Skoðanakannanirnar þrjár benda allar til þess að fylgi Sjálfstæðisflokksins hafi á hinn bóginn minnkað mikið undanfarið. Samkvæmt MMR er það nú 28,5%, Fréttablaðið og Stöð 2 mæla það 29% og samkvæmt Capacent er það 30%.
Samfylkingin mælist með 12,8% bæði í skoðanakönnun MMR og Fréttablaðsins og Stöðvar 2. Samkvæmt Capacent er fylgi flokksins hins vegar 15%. Hinn ríkisstjórnarflokkurinn, Vinstrihreyfingin - grænt framboð, mælist með 9,5% hjá MMR, 11,8% hjá Fréttablaðinu og Stöð 2 og 7% samkvæmt Capacent. Einna mestur munur mælist á fylgi Bjartrar framtíðar á milli kannana. Flokkurinn er með 15,3% samkvæmt MMR, 8,7% samkvæmt Fréttablaðinu og Stöð 2 og 16% samkvæmt Capacent. Önnur framboð mælast með minna fylgi.