Árni Páll Árnason, formaður Samfylkingarinnar, leggur fram á Alþingi í dag ásamt Katrínu Jakobsdóttur, formanni VG, og Guðmundi Steingrímssyni, formanni Bjartrar framtíðar, frumvarp til breytingar á stjórnarskrá sem heimilar stjórnarskrárbreytingar á næsta kjörtímabili og tillögu til þingsályktunar um að heildarendurskoðun stjórnarskrárinnar á grundvelli tillagna stjórnlagaráðs verði lokið á 70 ára afmæli lýðveldisins árið 2014.
Hafa formenn Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks verið upplýstir um þennan tillöguflutning. Vonir standa til að unnt verði að mæla fyrir báðum málunum í dag og koma þeim til nefndar. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Samfylkingunni.
„Með þessu er hafið það ferli sem formaður Samfylkingarinnar hefur talað fyrir til að tryggja að þjóðarvilji um stjórnarskrárbreytingar verði virtur og því forðað að fyrirliggjandi frumvarp til stjórnskipunarlaga dagi uppi á þingi, eins og stefnir í að óbreyttu. Með þessu yrði unnt að tryggja að efni þess frumvarps sem nú liggur fyrir verði áfram til meðferðar á nýju þingi og komist til endanlegrar ákvörðunar þjóðarinnar. Samfylkingin leggur jafnframt ríka áherslu á að fyrir þinglok verði afgreidd ákvæði um þjóðareign á auðlindum og þjóðaratkvæðagreiðslur. Unnið verður sérstaklega að því að tryggja þau ákvæði á næstu dögum,“ segir í tilkynningunni.
„Nú munum við einhenda okkur í að vinna þessum hugmyndum fylgi í þinginu og freista þess að fá tilstyrk allra flokka við að stjórnarskrárumbótum verði haldið áfram á næsta kjörtímabili. Við munum líka halda áfram viðræðum við aðra flokka um ákvæði um þjóðareign á auðlindum og þjóðaratkvæði. Um þau efnisatriði ætti að vera hægt að ná víðtækri samstöðu innan þeirra tímamarka sem okkur eru sett, enda hafa þau verið rædd um árabil,“ er haft eftir Árna Páli af þessu tilefni.