Bjarni Harðarson, bóksali á Selfossi og fyrrverandi alþingismaður, er ásamt Atla Gíslasyni með í undirbúningi nýtt framboð til Alþingis. Flokkurinn ber heitið Regnboginn - fyrir sjálfstæði Íslands og sjálfbæra þróun. Frá þessu er greint á fréttavefnum Suðurfréttir.
Þar segir að Bjarni hafi verið á Eyrarbakka föstudaginn síðastliðinn að safna undirskriftum til að geta sótt um listabókstaf fyrir framboðið og menn í hans umboði gerðu slíkt hið sama fyrir utan matvöruverslunina Krónuna á Selfossi.
Þá er vísað í samtal við Atla Gíslason þingmann þar sem fram kom að um væri að ræða regnhlífarsamtök. Frekari upplýsinga væri hins vegar ekki að vænta fyrr en mál hefðu skýrst betur.