Mér er ómögulegt að þegja er yfirskrift pistils Valgerðar Bjarnadóttur, formanns stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar, sem hún skrifar á Eyjuna í kvöld. „Staðreyndin er einfaldlega sú að þau sem hefur ekki þóknast meðferð þessa máls hafa verið sannfærð um að þeim tækist að stoppa það með einhverjum brögðum. Að aftur yrði horfið til þess háttalags að ráða ráðum í hádegisverðum í ráðherrabústaðnum,“ skrifar Valgerður m.a. í grein sinni sem fjallar um stjórnarskrármálið og meðferð þess.
Í greininni fjallar hún um þá gagnrýni sem komið hefur fram á málið.
Skrifar Valgerður að það sé ekki alls kostar rétt að Samfylkingin hafi geymt umfjöllun um stjórnskipanina þar til álit Feneyjanefndar lægi fyrir.
„Feneyjanefndin benti á að staða eða völd ríkisstjórnar gagnvart þinginu væri mun veikari í frumvarpinu en í núverandi stjórnskipan. Það er alveg hárrétt, enda var það ætlun stjórnlagaráðsins að auka völd Alþingis og minnka völd ríkisstjórnar – og draga þannig úr foringjaræði. Ég hef verið þeirrar skoðunar að það væri almennt samkomulag um að foringjaræði það sem ríkti hér fyrir hrun og árum þar á undan hafi ekki verið íslensku þjóðfélagi heilsusamlegt.
Kannski er það einhver misskilningur hjá mér, ef til vill sakna menn stjórnunarstíls Davíðs og Halldórs,“ skrifar Valgerður.
„Sumir eru á móti þjóðaratkvæðagreiðslum, en fleiri með. Sumir eru á móti jöfnum atkvæðisrétti, en fleiri með. Sumir eru á móti persónukjöri, en fleiri með.
Engar kúvendingar voru gerðar á tillögum stjórnlagaráðsins nú á síðustu vikum. Þeir, sem segja að það hafi verið fullbúið of seint, tala annað hvort gegn betri vitund eða af vankunnáttu.“
Sjá pistil Valgerðar hér í heild.