Fylgi Sjálfstæðisflokks dalar áfram

Þingkosningar fara fram 27. apríl.
Þingkosningar fara fram 27. apríl. mbl.isÓmar

Sjálfstæðisflokkurinn missir áfram fylgi og mældist það nú 27,2% samkvæmt nýrri skoðanakönnun MMR á fylgi stjórnmálaflokka. Framsóknarflokkurinn heldur áfram að auka fylgi sitt og er kominn upp í 25,9% fylgi.

Sjálfstæðisflokkurinn var með 28,5% stuðning í síðustu mælingu MMR. Um síðustu áramót var fylgi flokksins um 38%. Framsóknarflokkurinn heldur áfram að bæta við sig fylgi og stendur það nú í 25,9%, borið saman við 23,8% í síðustu mælingu. Stuðningur við önnur framboð ýmist stóð í stað eða breyttist lítillega.

Samfylkingin er með 12,4% fylgi samkvæmt könnuninni, VG með 9,6%, Björt framtíð með 15,2%, Dögun 1,9%, Hægri-grænir 2,1%, Píratar 3,6% og önnur framboð fá samtals 2%.

Stuðningur við ríkisstjórnina mælist nú 26,5%.

Könnunin var framkvæmd dagana 7. til 12. mars 2013 og var heildarfjöldi svarenda 875 einstaklingar á aldrinum 18-67 ára.

Nánar um könnunina

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert