„24 tímar, ein ponta og fullt af málum“

„Okkar afstaða er alveg skýr, við viljum alls ekki að …
„Okkar afstaða er alveg skýr, við viljum alls ekki að þetta ferli lognist út af og höfum þess vegna lagt fram þessa tillögu sem leið til að halda málinu áfram,“ segir Guðmundur Steingrímsson. mbl.is/Ómar

Guðmundur Steingrímsson, formaður Bjartrar Framtíðar segist vongóður um að sátt náist í stjórnarskrármálinu á næstu dögum.

„Tillagan sem við formennirnir þrír lögðum fram kveður á um breytingu á breytingarákvæði stjórnarskrárinnar sem opnar fyrir að hægt sé að breyta stjórnarskránni með bindandi þjóðaratkvæðagreiðslu. Að mati okkar í Bjartri framtíð er það skynsamleg leið til að ljúka heildarendurskoðun á stjórnarskrá,“ segir Guðmundur.

Að hans mati er rétt að samræmi ríki milli þess háttar sem hafður var á við samþykkt núverandi stjórnarskrár og þeirrar nýju. „Núverandi stjórnarskrá er samþykkt með þjóðaratkvæðagreiðslu og því finnst okkur skynsamlegt að ljúka þessari endurskoðun með sama hætti. Það er líka að mörgu leyti skynsamlegra en þessi leið sem nú er reynt að fara, það er að segja atkvæðagreiðsla, kosningar og svo annað þing og atkvæðagreiðsla. Í þeirri útfærslu þarf tvö þing og eins og við upplifum í augnablikinu er  mikil pressa á málinu vegna þess að kosningar nálgast,“ segir Guðmundur. 

„Ef okkar leið verður farin vinnst örlítið meiri tími, meðal annars til að svara þeim athugasemdum sem hafa borist og ljúka þessu svo á lýðræðislegan hátt,“ segir Guðmundur. Að hans sögn er ekki um frestun að ræða í því tilviki. „Hér er ekki verið að fresta neinu, heldur aðeins búa til annan feril,“ segir Guðmundur. „Margir halda að þetta þing geti klárað málið, en það er ekki mögulegt og hefur aldrei verið. Það þarf tvö þing. Þetta snýst um einfaldlega um að breyta ferlinu,“ segir Guðmundur. 

„Þingmenn Bjartrar Framtíðar byrjuðu að tala fyrir þessu fyrir nokkrum mánuðum vegna þess að okkur sýndist að erfiðlega myndi ganga að koma stjórnarskránni í gegnum tvö þing innan þessa tímaramma. Við áttuðum okkur á því að hitt fyrirkomulagið myndi henta betur,“ segir Guðmundur. „Hér er því enginn að ræða frestun, heldur þarf að mynda sátt um ferilinn sem eftir er,“ segir Guðmundur. 

Tillaga þeirra Katrínar, Árna Páls og Guðmundar var lögð fyrir nefnd. „Sjónarmiðum Sjálfstæðismanna hefur verið mætt, það voru skoðanaskipti um hvernig breytingarákvæðið ætti að vera og nú lítur það þannig út að ef 2/3 þingmanna samþykkja stjórnarskrána þá má hún fara í þjóðaratkvæðagreiðslu. Samþykki þar einfaldur meirihluti (að minnsta kosti 25% atkvæðisbærra manna) fengjum við breytta stjórnarskrá á mjög lýðræðislegan hátt að mínu mati,“ segir Guðmundur. 

Bíða viðbragða Framsóknar og Sjálfstæðisflokks

Tillagan hefur ekki enn verið samþykkt. „Þetta er það sem kom út úr nefndinni og nú bíðum við bara viðbragða, aðallega frá Framsóknar- og Sjálfstæðisflokki“ segir Guðmundur. „Líka er rætt um að auðlindaákvæði verði bætt við. Það stendur ekki á okkur í því, það væri hið besta mál,“ segir Guðmundur. 

Aðspurður um sáttatillögu sem Árni Páll Árnason lagði fram á formannsfundi í gærmorgun segir Guðmundur hana í takt við upprunalega tillögu formannanna þriggja. „Þar er athugað hvort menn geti ekki fallist á að breyta breytingarákvæðinu á þennan hátt svo að hægt sé að halda málinu áfram og hvort ekki sé sátt um auðlindaákvæði,“ segir Guðmundur.

Hann segist ekki hafa rætt óformlega við aðra þingmenn í dag. „Okkar afstaða er alveg skýr, við viljum alls ekki að þetta ferli lognist út af og höfum þess vegna lagt fram þessa tillögu sem leið til að halda málinu áfram,“ segir hann.

Inntur eftir því hvort raunhæft sé að lausn náist í málinu á næstu dögum segir hann svo vera. „Ef menn vilja það, þá hef ég fulla trú á að fólk ætti að geta fallist á þessa lausn,“ segir hann. 

Málþóf fáránlega ólýðræðisleg leið

Guðmundur kennir málþófi að miklu leyti um þær tafir sem orðið hafa á þinglokum. „Mér sýnist að þörf sé á verulegum breytingum á þingsköpum. Þingið reynir að starfa eftir starfsáætlun en á sama tíma er ekki hægt að takmarka lengd umræðu um mál, sú hefð hefur ekki orðið til í íslenska þinginu eins og á mörgum öðrum þjóðþingum.

Guðmundur nefnir að nýja stjórnarskráin kveði á um breytingar á þessu sviði. „Þingmenn geta talað mjög oft í einstökum málum, þeim er heimilt að koma ítrekað upp í pontu við lok þings á kjörtímabilinu og ég myndi segja að það þurfi að færa stjórnarandstöðunni einhver önnur úrræði en þessi. Til dæmis er í nýju stjórnarskránni gert ráð fyrir að stjórnarandstaða geti sett mál í þjóðaratkvæðagreiðslu. Ég held að ef sú tillaga verður að raunveruleika verði hægt að skipuleggja tíma þingsins betur. Ég held að málþóf af þessu tagi sé fáránlega ólýðræðisleg leið til að landa málum í þinginu auk þess sem hún gerir það að verkum að það er mjög erfitt að koma málum í gegn við þinglok,“ segir Guðmundur. 

„Í þingsköpum eru ákvæði til að stytta ræðutíma í einu máli, en reyndir yrði sú að ef ræðutíminn yrði takmarkaður í einu máli í óþökk minnihlutans þá myndi málþóf einfaldlega vera tekið í öðru máli. Þannig að ef ætlunin væri að takmarka ræðutíma í einu máli þá þarf að takmarka hann í öllum,“ segir Guðmundur. 

Að mati Guðmundar er eðlilegt að almennar fundarreglur eigi líka við um starfshætti Alþingis. „Við erum með 24 tíma í sólarhringnum, eina pontu og fullt af málum. Svo reynum við að halda starfsáætlun. Meginreglan hlýtur að eiga að vera sú að hægt sé að takmarka tímann sem hægt er að tala um mál eins og gert er í velflestum þjóðþingum og öllum fundum í samfélaginu, maður fer sjaldan á fund þar sem hverjum manni er heimilt að tala 15, 16, 17 sinnum. Þá grípur yfirleitt einhver fundarstjóri inn í og auðvitað á það sama að vera uppi á teningnum á Alþingi,“ segir Guðmundur. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert