Formanni Samfylkingarinnar, Árna Páli Árnasyni, eru sendar baráttukveðjur í ályktun sem samþykkt var á aðalfundi Samfylkingarfélagsins í Kópavogi sem fram fór í gærkvöld. Ennfremur er lýst yfir stuðningi við viðleitni formannsins til þess „að tryggja umfjöllun og afgreiðslu nýrrar stjórnarskrár á næsta kjörtímabili.“
Þar er vísað til frumvarps Árna Páls og formanna Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs og Bjartrar framtíðar, þeirra Katrínar Jakobsdóttur og Guðmundar Steingrímsson, sem gerir ráð fyrir afmörkuðum breytingum á stjórnarskránni og að haldið verði áfram heildarendurskoðun hennar á grundvelli tillagna stjórnlagaráðs á næsta kjörtímabili.
Ályktun aðalfundar Samfylkingarfélags Kópavogs:
„Aðalfundur Samfylkingarfélagsins í Kópavogi sendir Árna Páli Árnasyni, formanni Samfylkingarinnar, baráttukveðjur og lýsir yfir eindrægum stuðningi við þá viðleitni formannsins að tryggja umfjöllun og afgreiðslu nýrrar stjórnarskrár á næsta kjörtímabili.“