„Það er í raun og veru óvirðing við stjórnarskrá Íslands að fara fram með þeim hætti,“ sagði Magnús Orri Schram, þingmaður Samfylkingarinnar, á Alþingi í dag og vísaði þar til breytingartillögu Margrétar Tryggvadóttur, þingmanns Hreyfingarinnar, við frumvarp formanna Samfylkingarinnar, Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs og Bjartrar framtíðar að breytingum á stjórnarskránni.
Breytingartillaga Margrétar gerir ráð fyrir að frumvarp stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar að nýrri stjórnarskrá komi í stað innihalds frumvarps formannanna þriggja. Sagði Magnús Orri að Margrét gæti ekki ætlast til þess að tillaga hennar yrði samþykkt án greinargerðar og lögskýringa.