Landsbyggðaflokkurinn er mótfallinn sölu á landsvæði í Vatnsmýrinni undir íbúabyggð í Reykjavíkurborg. Flokkurinn telur að með honum sé verið að stíga skref í átt að lokun hluta eða allrar flugstarfsemi á svæðinu, þvert á vilja meirihluta þjóðarinnar.
Í tilkynningu frá Landsbyggðarflokknum segir að flokkurinn telji að það sé „óforsvaranlegt að ríkið selji land í eigu þjóðarinnar til handa Reykjavíkurborg án allrar umræðu þegar um svo umdeilanlegt mál er að ræða.“
„Ætli tilgangur og titill Reykjavíkur sem höfuðborg landsins alls að halda vatni er það lágmarkskrafa að þjóðin öll hafi greiðan aðgang að þeirri grunnþjónustu og stjórnsýslu sem þar er haldið úti og haldið í lágmarki á landsbyggðinni undir þeim formerkjum að hana sé hægt að sækja til Reykjavíkur,“ segir í tilkynningunni.
„Landsbyggðarflokkurinn telur það ljóst að verði áformum Reykjavíkurborgar um flutning flugvallarins úr Vatnsmýrinni haldið til streitu verði alger forsendubrestur í ýmsum stærri málum sem brenna á þjóðinni. Svo sem bygging hátæknisjúkrahúss, samdráttur í þjónustu og stjórnsýslu á landsbyggðinni og þá staðsetning nýs flugvallar.“