Frumvarp formanna stjórnarflokkanna og formanns Bjartrar framtíðar um afmarkaðar breytingar á stjórnarskránni hefur nú verið tekið til umræðu á Alþingi á ný. Eins og mbl.is hefur fjallað um var reynt að ná samkomulagi um afgreiðslu málsins, sem og frestun þingfunda fram yfir kosningar, á milli stjórnmálaflokkanna á þingi í gær og fyrrakvöld en án árangurs.
Mikill kliður fór um þingsalinn þegar Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir, forseti Alþingis, tilkynnti að málið væri tekið á dagskrá. Fyrstur í ræðustól er Sigurður Ingi Jóhannsson, varaformaður Framsóknarflokksins, sem heldur áfram ræðu sem var í miðju klíðum þegar viðræður hófust um kvöldmatarleytið á þriðjudaginn. Í ræðu sinni lagði hann meðal annars áherslu á mikilvægi þess að breið sátt væri um breytingar á stjórnarskrá.
Þá vakti hann máls á því að engin samstaða væri innan stjórnarflokkanna um frumvarpið. Þannig hefði Árni Páll Árnason, formaður Samfylkingarinnar, lagt fram ákveðna tillögu um síðustu helgi ákvæði í stjórnarskrá um auðlindir í þjóðareigu. Í fyrradag hafi síðan þingflokksformenn stjórnarflokkanna lagt fram aðra tillögu sem hafi verið efnislega allt öðruvísi.
Tillaga forseta Alþingis um að þingfundur gæti staðið lengur í dag en þingsköp gera ráð fyrir var samþykkt í dag með 29 atkvæðum gegn 11.