Deildu um afstöðu Vigdísar

„Þetta var samþykkt hér á Alþingi í gær með öllum greiddum atkvæðum gegn einu atkvæði framsóknarmanns, honum til mikillar skammar, flokknum hans til niðurlægingar og Alþingi sömuleiðis að hér innan þessara veggja skuli finnast þingmenn, skuli finnast þingmenn hvar í flokki sem þeir standa sem að leggjast gegn því að Ísland styðji við vanþróuð ríki og fátækt í heiminum. Það er niðurlægjandi fyrir þá þingmenn sem það gera, það er þeim til ævarandi skammar og það setur þingið niður.“

Þetta sagði Björn Valur Gíslason, varaformaður Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs, á Alþingi í dag og vísað þar til Vigdísar Hauksdóttur, þingmanns Framsóknarflokksins, en hún greiddi á Alþingi í gær atkvæði gegn þingsályktunartillögu um áætlun um alþjóðlega þróunarsamvinnu Íslands 2013--2016. Hún gaf þá skýringu í fréttum Stöðvar 2 að málið snerist um forgangsröðun að hennar mati og að ekki væri rétt að ráðstafa 24 milljörðum króna í erlendum gjaldeyri næstu fjögur árin á sama tíma og Landspítalinn væri í fjársvelti.

Björn Valur var að bregðast við fyrirspurn frá Björgvini G. Sigurðssyni, þingmanni Samfylkingarinnar, sem spurði um afstöðu Björns og VG til þróunaraðstoðar í ljósi þess hvernig Vigdís hefði varið atkvæði sínu. Illugi Gunnarsson, þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins, gagnrýndi Björgvin harðlega fyrir að beina ekki fyrirspurn sinni til Vigdísar fyrst hann hafi verið að ræða um hana í stað þess að beina orðum sínum til Björns sem hefði enga sérstaka aðkomu að málinu.

Björgvin varði framgöngu sína og sagðist ekki hafa verið að ræða um Vigdísi sérstaklega og afstöðu hennar heldur aðeins verið að spyrjast fyrir um afstöðu VG til málsins. Björn Valur furðaði sig á því að honum væri ekki frjálst að beina fyrirspurn sinni þangað sem hann kysi.

Sigurður Ingi Jóhannsson, varaformaður Framsóknarflokksins, tóku undir gagnrýni Illuga og fór fram á það við forseta Alþingis að málið yrði tekið upp í forsætisnefnd. Undir það tók Höskuldur Þórhallsson, þingmaður flokksins, og spurði hvort eitthvað væri óljóst við stefnu VG gagnvart þróunarmálum. Benti hann annars á að Vigdís hefði aðeins verið að greiða atkvæði í samræmi við sannfæringu sína.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert