Talsverðar umræður sköpuðust á Alþingi í morgun um stóriðjumál og gagnrýndu þingmenn úr röðum stjórnarliða samninga sem gerðir voru af fyrri ríkisstjórnum sem gerðu fyrirtækjum sem störfuðu hér á landi við álframleiðslu mögulegt að komast hjá því að greiða tekjuskatta. Meðal þeirra sem tóku til máls var Björn Valur Gíslason, varaformaður Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs, sem hvatti til þess að slíkir samningar yrðu ekki gerðir aftur.
Álfheiður Ingadóttir, þingflokksformaður VG, minnti á þau neikvæðu áhrif sem Kárahnjúkavirkjum hefði haft á lífríki Lagarfljóts sem væri fyrir vikið dautt. Minnti hún ennfremur á að VG hefði ekki stutt samkomulag um stóriðju í Helguvík á Reykjanesi árið 2009 þegar flokkurinn hafi verið í starfandi minnihlutastjórn í ljósi þess að innst hefði verið á þá framkvæmd í umræðunni. Vildi hún ekki að VG yrði bendlað við hana.
Illugi Gunnarsson, þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins, benti hins vegar á að frumvörp núverandi ríkisstjórnar um stóriðjuframkvæmdir á Bakka við Húsavík, sem lögð væru fram af Steingrími J. Sigfússyni fyrrverandi formanni VG, gengju lengra en fyrri samningar um stóriðju varðandi ívilnanir.
Þannig væri bæði gert ráð fyrir því að ekki þyrfti að greiða tryggingagjald vegna starfseminnar auk þess sem kveðið væri á um lægri skatta en almennt gerðist. Sérstaklega væri getið þess að ef skattar lækkuðu almennt meira nyti starfsemin því en skattar á hana hækkuðu hins vegar ekki að sama skapi væru þeir almennt hækkaðir.
Illugi undirstrikaði að hann væri mjög hlynntur uppbyggingu þessarar stóriðju á Bakka en það væri furðulegt að hlusta á Álfheiði tala um að hún vildi ekki láta bendla VG við stóriðjuframkvæmdir á sama tíma og þessi frumvörp lægju fyrir á Alþingi. Benti hann ennfremur á að ríkisstjórnin hefði lofað því að lækka tryggingagjaldið á almennan rekstur en ekki staðið við það. Nú ætti að bjóða aðeins einu fyrirtæki upp á það.
Fleiri þingmenn tóku til máls í þessum efnum og hvatti Birgir Ármannsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, af þeim sökum til þess að frumvörp um stóriðjuuppbyggingu á Bakka yrði færð framar í dagskrá Alþingis í dag og fram yfir fyrsta málið á dagskrá eftir umræður um störf þingsins sem er frumvarp til breytinga á stjórnarskránni.