Sjálfstæðisflokkurinn kynnti í dag á fundi stefnumál sín fyrir komandi kosningar. Á fundinum ávörpuðu Bjarni Benediktsson og Hanna Birna Kristjánsdóttir fundargesti fyrir fullum sal á Hotel Nordica.
Bjarni Benediktsson hóf ræðu sína með því að segja að enginn hafi skattlagt sig út úr kreppu og því sé það mikilvægasta sem hægt sé að gera fyrir fjölskyldur þessa lands að lækka skatta.
Hann hefur trú á því að handan við hornið sé nýtt stöðugleika- og vaxtarskeið. Það muni þó einungis nást sé unnið með launþegahreyfingunni og vinnumarkaðnum en ekki gegn þeim eins og núverandi ríkisstjórn geri, að hans sögn.
Hann segir jafnframt ákveðin merki séu á lofti um það að landið sé að festast í kreppu. Hagvöxtur sé enginn, vextir háir sem og verðbólgan. Það sé afsprengi þeirrar skattastefnu sem fólkið í landinu hefur mátt þola.
Bjarni ítrekar að Sjálfstæðisflokkurinn vilji vera utan ESB. Hann segir að hann vilji þjóðaratkvæðagreiðslu um áframhald viðræðna. Öðruvísi fáist ekki skýrt umboð fyrir þjóðina. Hann segist sjá fyrir sér að atkvæðagreiðsla geti farið fram á fyrri hluta næsta kjörtímabils.
Hann spyr sig hvers vegna vinstri menn telji að auðvelt eigi að vera að breyta stjórnarskrá. Hann segir breytingar á stjórnarskránni nauðsynlegar en einungis breytingar sem sátt er um.