Þegar Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra, lætur af þingmennsku hefur hún átt sæti á Alþingi í tæp 35 ár (34 ár og 10 mánuði). Hún hefur setið lengst allra kvenna á Alþingi. Útlit er fyrir að þingstörfum ljúki síðar í dag og því verður þetta væntanlega hennar síðasti dagur í sal Alþingis sem þingmaður.
Næst Jóhönnu kemur Ragnhildur Helgadóttir sem sat samtals í 23 og hálft ár á þingi. Hún sat þrjár lotur á tímabilinu 1956-1991 (á 35 ára tímabili). Næst kemur Valgerður Sverrisdóttir sem sat á þingi í 22 ár frá 1987-2009 og svo Margrét Frímannsdóttir sem sat á þingi í 20 ár frá 1987-2007. Þar næst koma Ásta R. Jóhannesdóttir og Siv Friðleifsdóttir sem hafa setið á Alþingi í 18 ár. Þær munu báðar láta af þingstörfum nú í lok apríl.
Jóhanna Sigurðardóttir er í 12. sæti yfir þá sem lengst hafa setið á Alþingi (Pétur Ottesen setið lengst, tæp 43 ár), samkvæmt upplýsingum frá Helga Bernódussyni, skrifstofustjóra Alþingis.