Mál sem varða almannahag

Birgitta Jónsdóttir þingmaður.
Birgitta Jónsdóttir þingmaður. mbl.is/Styrmir Kári

„Það er í raun og veru ekkert lagatæknilega séð sem bannar það að ég greini frá samráðsfundum. Þetta er ekki hluti af þingsköpum. Ég hef ítrekað reynt að fá bókaða hluti á þessum fundum en það er ekki hægt út af því að þetta er samráðsvettvangur,“ segir Birgitta Jónsdóttir þingmaður sem skýrði frá fundarefni formanna stjórnmálaflokkanna sem fram fór í gærkvöldi.

Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir, forseti Alþingis, sagði í samtali við mbl.is í gær, að Birgittu, sem skrifaði stutta færslu á Facebook, hefði ekki verið heimilt að greina frá efni fundarins.  Ásta Ragnheiður sagði að efni fundarins væri trúnaðarmál.

Birgitta segir í samtali við mbl.is, að á fundinum hafi formennirnir verið að fjalla um mál sem varði almannahag og almenningur eigi rétt á að vita.

Óeðlileg vinnubrögð

„Þetta er ekkert í takt við þá kröfu sem fólk gerir til okkar; að það sé verið makka um svona viðamikla hluti, sem á bara að keyra í gegn án nokkurrar umræðu. Steingrímur J. Sigfússon fer þar fyrir Bakka til þess að fá atkvæði í sínu kjördæmi. Þetta er algjörlega órætt þrátt fyrir að núna vitum við að það er búið að drepa Lagarfljótið,“ segir Birgitta og bætir við að svona vinnubrögð séu óeðlileg.

Hún segir ennfremur, að hún myndi aldrei grípa til svona örþrifaráða nema mikið lægi við. Atburðarásin hafi verið mjög hröð og þá hafi henni aldrei verið boðið að láta í ljós sínar skoðanir á málunum.

„Það var ekkert hlusta á mig,“ segir Birgitta og heldur áfram: „Ég var bara að tala við sjálfa mig.“

„Þau vissu að ég myndi aldrei samþykkja þetta og þau vissu líka að ég myndi segja þeirra samflokksfólki frá því að það væri verið að semja þvert á það sem þau héldu,“ segir Birgitta.

Óþolandi flugan í tjaldinu

Hún bendir á, að í kjölfar hrunsins hafi almenningur farið fram á aukið gagnsæi og að ábyrgðarkeðjan yrði skýrari. „Ég lofaði því þegar ég fór inn á þing að vera óþolandi flugan í tjaldinu og draga tjöldin frá,“ segir Birgitta og bætir við að hún sjái ekki eftir því að hafa greint frá efni fundarins. Hún skilji aftur á móti gremju þeirra sem séu ósáttir við uppljóstranir hennar.

Færsla Birgittu frá því í gær er svohljóðandi:

„Loksins fékk ég boð á formannafund og þar fékk ég eftirfarandi staðfest sem samninga á milli formanna fjórflokksins: Þau eru búin að semja um 40% þröskuld á breytingar á stjórnarskrá, ef mál er umdeilt þurfa um 90% allra á kjörskrá að mæta á kjörfund til að fá ákvæði samþykkt. Ekkert auðlindarákvæði, Bakki verður keyrður í gegn og náttúruverndarlögin verða ekki lögfest fyrr en eftir í fyrsta lagi eftir ár.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert