Framsóknarflokkurinn er með mest fylgi í nýrri könnun Félagsvísindastofnunar Háskóla Íslands fyrir Morgunblaðið, vegna komandi þingkosninga. Flokkurinn fengi 28,5% atkvæða, yrði gengið til kosninga nú, sem er aukning um sex prósentustig frá síðustu könnun Félagsvísindastofnunar í byrjun mars. Fengi Framsókn 21 þingmann kjörinn, borið saman við níu árið 2009.
Næstur á eftir kemur Sjálfstæðisflokkurinn með 26,1% fylgi, 3,3 prósentustigum minna en í síðustu könnun og 19 þingmenn, er með 16 núna. Samfylkingin fengi 12,8%, var með 16,1% í síðustu könnun og tæp 30% í síðustu kosningum. Samfylkingin fékk 20 þingmenn 2009 en fengi níu nú. Vinstri grænir fengju 8% fylgi samkvæmt könnuninni nú, voru með 9,9% í síðustu könnun en fengu 21,7% í kosningunum 2009. VG fengi sex þingmenn í stað 14 árið 2009. Björt framtíð fengi 11,4% fylgi nú, var með 12% í síðustu könnun og fengi átta þingmenn kjörna. Aðrir flokkar kæmu ekki manni inn á þing.
Félagsvísindastofnun framkvæmdi könnunina dagana 18. til 26. mars sl. Alls voru 3.400 manns í úrtakinu, þar af 1.800 í netkönnun og 1.600 í símakönnun. Alls fengust 2.014 svör frá fólki á aldrinum 18-83 ára og svarhlutfallið var tæp 60%.
Svarendur voru einnig spurðir hvaða flokka þeir kusu í kosningunum 2009. Í ljós kemur að mikil hreyfing er á fylginu á milli flokka. Flestir ætla að kjósa Framsóknarflokkinn aftur, eða 82% framsóknarmanna, á meðan 65% sjálfstæðismanna halda tryggð við flokkinn, 40% hjá Samfylkingunni og 34% hjá VG. Þá ætla 25% þeirra sem kusu Sjálfstæðisflokkinn, 19,5% þeirra sem kusu VG og 17,8% sem kusu Samfylkingu að kjósa Framsókn. Björt framtíð tekur mest fylgi frá stjórnarflokkunum.
Katrín Jakobsdóttir, formaður VG, og Guðmundur Steingrímsson, formaður Bjartrar framtíðar, eru sammála um að margt geti breyst í aðdraganda kosninganna en Katrín Júlíusdóttir, varaformaður Samfylkingar, segir flokkinn þurfa að herða róðurinn.