Fundum Alþingis frestað í nótt

Jóhanna Sigurðardóttir flytur sína síðustu ræðu á Alþingi í nótt …
Jóhanna Sigurðardóttir flytur sína síðustu ræðu á Alþingi í nótt og frestar þingfundum. Ljósmynd/skjáskot af vef Alþingis

„Samkvæmt því umboði sem ég hef áður lýst og með vísan til samþykkis Alþingis lýsi ég því yfir að fundum Alþingis, 141. löggjafarþings er frestað,“ sagði Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra, er hún frestaði fundum Alþingis nú rétt fyrir klukkan tvö í nótt.

Flutti hún þá sína síðustu ræðu á Alþingi eftir hartnær 35 ára setu á þingi.

„Eins og kunnugt er hef ég ákveðið að hætta þátttöku í stjórnmálum að loknu þessu kjörtímabili. Ég vil því nota þetta tækifæri til að þakka háttvirtum alþingismönnum, núverandi og fyrrverandi, sem ég hef starfað með á þessum vettvangi í 35 ár fyrir samstarfið og vináttu sem myndast hefur við marga þingmenn á þessum tíma.

Við höfum oft á tíðum tekist hart á í stjórn og stjórnarandstöðu eins og eðlilegt er þegar stefna um baráttumál skilja stjórnmálaflokka að. Oft hefur umræða í þingsölum verið óvægin, einkum hin síðustu ár. Kannski óvægnari og hatramari en oft áður.

Af þeim sökum hafa síðustu vikur mínar hér á Alþingi verið daprasta tímabilið á mínum þingferli. Ég tel að það mikilvægasta á hinum stjórnmálalega vettvangi sé að breyta þinghaldinu og koma því í það horf sem að tíðkast til dæmis á hinum Norðurlöndunum þar sem sjálfsagt þykir að ekki sé hægt með óeðlilegum hætti að tefja endalaust framgang á stjórnarfrumvörpum lýðræðislega kjörinna stjórnvalda. Ég tel að sómi Alþingis sé í húfi að þetta takist.

Í þessari lokaræðu minni á Alþingi Íslendinga vil ég líka hvetja til þess að dregið verði úr köpuryrðum sem eru allt of tíð hér í þingsölum. Ég hvet einnig til þess að þingmenn beri meiri virðingu fyrir hvert öðrum og sjónarmiðum hvers annars og þeir hagi orðræðu sinni eftir því. Þar verða allir að taka sig á þá mun Alþingi vel farnast í framtíðinni.

Ég óska ykkur, hverju og einu, alls hins besta á þessum vettvangi eða hvar sem þið annars haslið ykkur völl í framtíðinni. Nú þegar ég yfirgef brátt svið stjórnmálanna vona ég að mér endist líf og heilsa til að njóta nokkurra góðra ára án stjórnmálaafskipta að loknum þessum langa kafla í lífi mínu.

Ég vil jafnframt nota þetta tækifæri til að þakka starfsmönnum þingsins fyrir gott samstarf í afar krefjandi þingstörfum á kjörtímabilinu og óska þeim velfarnaðar í framtíðinni. Jafnframt þakka ég starfsfólki ráðuneyta og stofnana og þeim fjölmörgu aðilum á vettvangi félagasamtaka og vinnumarkaðar sem ég hef átt samskipti við í forsætisráðherratíð minni.

Þjóðinni allri þakka ég þolinmæði, þrautseigju og umburðarlyndi á einum erfiðasta tíma í sögu þjóðar okkar. Ég óska alþingismönnum og landsmönnum öllum gæfu og velfarnaðar um ókomin ár,“ sagði Jóhanna í sinni síðustu þingræðu.

Á meðfylgjandi myndum má sjá brot af þingstörfunum sem Styrmir Kári Erwinsson ljósmyndari mbl.is tók í í kvöld.

Jóhanna Sigurðardóttir sat sinn síðasta þingfund í nótt á Alþingi …
Jóhanna Sigurðardóttir sat sinn síðasta þingfund í nótt á Alþingi eftir 35 ára feril sem þingmaður og ráðherra. mbl.is/Styrmir Kári
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert