Sigurður Guðmundsson, sérfræðingur í lyflækningum og smitsjúkdómum á Landspítalanum, segir ástandið á spítalanum einfaldlega vera þjóðarskömm. Þetta kemur fram í ritstjórnargrein sem hann ritar í Læknablaðinu.
Hann segir að ekki sé allt með felldu á Landspítalanum og ýmislegt hafi gengið þar á að undanförnu.
Unnið undir spjalli fyllirafta
„Spítalinn er yfirfullur. Leguplássum á lyflækningadeildum hefur fækkað um 16% frá 2008 og bráðainnlögnum fjölgað um 24% frá 2009. Afleiðingin er meðal annars sú að fólk liggur reglulega á göngum. Það er einfaldlega þjóðarskömm.
Álag er mikið, og var óvenju mikið í byrjun árs. Saman fóru faraldrar inflúensu, RS og nóróveiru, en ekki bar minna á ýmsum öðrum sjúkdómum. Þanþol er hins vegar svo lítið orðið að mjög erfitt var við að ráða. Slíkt er ekki aðalsmerki öflugar heilbrigðisþjónustu,“ skrifar Sigurður.
Hann bendir á að vinnuborð ungra lækna lyfjadeilda á bráðamóttöku séu til að mynda á ganginum og ekki bregst að þar er fylliraftur næturinnar látinn liggja. „Hann og fleiri gestir og gangandi halda þeim svo uppi á snakki næturlangt. Við slíkar aðstæður er þreytandi að vinna. Ef tekst að bæta þetta og annað skylt er auðveldara að takast á við álag,“ skrifar Sigurður.
Laun ungra lækna of lág og ekki í neinu samræmi við námið
Hann segist eiga von á harðvítugri kjarabaráttu lækna, einkum ungra lækna. „Án þeirra er starfsemi sjúkrahússins stefnt í voða, svo einfalt er það. Laun þeirra eru lág, of lág, og ekki í neinu samræmi við það nám sem að baki liggur og þá ábyrgð sem störfunum fylgir.
Tækjabúnaður er úreltur og jafnvel hættulegur, eins og oft hefur verið bent á að undanförnu.
Svo koma húsnæðismálin. Mygla herjar á, og enn er sitthvað á huldu um nýja byggingu Landspítalans. Af ýmsum ástæðum eru áform uppi um fjármögnun ríkisins í stað einkaaðila sem myndu leigja ríkinu. Sá ótti læðist að, að hér verði aldarfjórðungslöng byggingarsaga Þjóðarbókhlöðu endurtekin. Það er of langur tími fyrir nýtt hús yfir spítalann.
Af hverju erum við komin í þessar ógöngur?
Ástæður eru vafalítið margar, en samnefnarinn er hinn þrotlausi, linnulausi og einbeitti niðurskurður sem heilbrigðisþjónusta hefur mátt sæta, einkum síðastliðin 4-5 ár.
Allt þetta höfum við látið yfir okkur og sjúklinga okkar ganga án þess að við höfum hreyft verulegum andmælum. Hvernig stendur á þessu? Við erum seinþreytt til vandræða og ef til vill er langlundargeð og jafnvel meðvirkni okkur í blóð borin. Er mögulegt að þeir sem ákveða framlög til heilbrigðismála hafi gengið á lagið, og jafnvel meðvitað eða ómeðvitað misnotað þetta langlundargeð? Látið hefur verið í veðri vaka að þrátt fyrir niðurskurð sé allt í góðu gengi, fólk afkasti einfaldlega meiru, og sjúklingum sé jafnvel sinnt og áður. Þannig hefur samfélagið skilið ástand mála á spítalanum. Reyndin er því miður önnur, eins og nú er ljóst.“
Skorið niður í heilbrigðisþjónustu á meðan illa reknum fyrirtækjum er bjargað
Sigurður ber saman kostnað við að reisa spítala og björgun fjármálafyrirtækja á undanförnum árum í ritstjórnargrein sinni.
„Umræða um hvað skiptir máli fer ekki fram. Á þeim tíma sem sífellt hefur verið þrengt að heilbrigðisþjónustu hefur illa reknum fjármálastofnunum og tryggingafélögum ítrekað verið komið til bjargar, ákvarðanir teknar um rándýr jarðgöng, nærfellt milljarður lagður til umræðu um nýja stjórnarskrá, málefni sem nú hefur brotlent með nokkrum látum. Sagt er að 50 milljarða hafi þurft til að bjarga Byr og SpKef, sem er ekki fjarri þeirri upphæð sem áætlað er að þurfi til að byggja nýtt hús fyrir spítalann.
Vafalítið er unnt að færa rök fyrir því að bjarga SpKef eða Sjóvá, og ný stjórnarskrá er mörgum heilög vé. Hins vegar skortir umræðu um vægi og vigt, mikilvægi þess að raða málum í forgang. Hvort vegur þyngra styrk og öflug heilbrigðisþjónusta eða framtíð SpKef og Sjóvár?,“ skrifar Sigurður sem bíður eftir því að heyra kosningaloforð frambjóðenda fyrir komandi alþingiskosningar.