Kosningabaráttan framundan

Frambjóðendur í sjónvarpssal.
Frambjóðendur í sjónvarpssal. Skjáskot/Rúv

Formenn og forsvarsmenn þeirra níu stjórnmálaflokka sem bjóða sig fram til Alþingiskosninga virtust sammála um það að kosningabaráttan sé rétt að byrja. Miklar breytingar geti því orðið á fylgi flokkanna áður en gengið verður að kjörborðum 27. apríl næstkomandi.

Þetta kom fram í kosningaþætti Sjónvarps Ríkisútvarpsins í kvöld. Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokks, sagði þar ekki gott að segja hvers vegna fylgi flokksins hafi dalað að undanförnu. Hann sagði flokksmenn ósátta en skoðanakannanir séu ekki kosningar og kosningabaráttan sé öll framundan. Sjálfstæðisflokkurinn hafi tekið saman stefnu og muni kynna hana kjósendum á næstu vikum. „Við sjáum svo til á kjördag.“

Margrét Tryggvadóttir, forsvarsmaður Dögunar, sagði flokkinn með fullmótað framboð og nú sé hann tilbúinn að tala við fólk og kynna hvað verði gert. „Það sem mér finnst merkilegt er að fylgið er á gríðarlegu flugi og það getur allt gerst.“ Hún sagði jafnframt greinilegt að kallað sé eftir nýjum valkostum.

Árni Páll Árnason, formaður Samfylkingarinnar, sagði fylgistölur ekki góðar en að kosningabaráttan sé að hefjast. „Við eigum skýrt erindi við fólkið í landinu,“ sagði Árni Páll og að hann kvíði ekki kjördegi.

Birgitta Jónsdóttir, forsvarsmaður Pírata, sagði mikla vinnu framundan. Flokkurinn mælist með 4,4% fylgi en þurfi meira til að koma manni á þing. Hún sagðist ánægð með hina fjölbreyttu flóru flokka sem hægt sé að velja um. Píratar séu með mikla sérstöðu, þeir nái nú þegar til ungs fólks en miðla þurfi því áfram að flokkurinn eigi einnig erindi við þá eldri.

Heiða Kristín Helgadóttir, forsvarsmaður Bjartrar framtíðar, sagði stöðu flokksins ágæta. Flokkurinn mælist með aðeins minna fylgi en hann ætli sér. Reynslan úr borginni sýni hins vegar að allt geti gerst á lokametrunum.

Guðmundur Franklín, formaður Hægri grænna, sagðist sáttur við það sem flokkurinn fái. Hann hvatti kjósendur til að lesa viðamikla stefnuskrá flokksins sem sé uppfull af haldbærum lausnum. Þó plaggið sé 2.000 síður sé lesturinn þess virði.

Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri grænna, sagði flokksmenn vana ákveðnum sveiflum í fylgi. Síðustu kosningar hafi verið haldnar á óvenjulegum tíma og því hafi fylgið hugsanlega verið of hátt. Flokkurinn hafi þó aðeins verið að kynna stefnu sína í dag og verði skýr valkostur fyrir frambjóðendur.

Að lokum tók til máls Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Framsóknarflokks. Hann sagði fylgi flokksins í skoðanakönnunum sýna að margir séu sammála framsóknarmönnum þegar kemur að nauðsynlegri forgangsröðun. Og einnig að það sé hægt að breyta hlutunum til hins betra. Sigmundur sagði að það yrði ekkert auðvelt eftir kosningar, en margir trúi því að með því að taka réttar ákvarðanir og fylgja þeim eftir sé hægt að breyta hlutunum til hins betra og það hratt.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert