„Tilgangur viðtalsins var að draga upp mynd af áhugaverðum og umtöluðum stjórnmálaleiðtoga. Aðdróttanir um að ég hafi með viðtalinu ætlað að gera honum óleik eru rangar,“ segir Sigríður Dögg Auðunsdóttir, ritstjóri Fréttatímans, um viðtal í blaðinu við Sigmund Davíð Gunnlaugsson, formann Framsóknarflokksins.
Sigmundur Davíð fjallaði um viðtalið á vefsvæði sínu í dag. Þar segist hann hafa fengið drög að viðtalinu til yfirlestrar og að hann hafi sent til baka ábendingar um eitt og annað sem var ekki rétt haft eftir eða á einhvern hátt villandi. Staðfesting hafi svo borist þess efnis að búið væri að taka inn allar athugasemdirnar.
„Þegar viðtalið svo birtist í blaðinu kom hins vegar í ljós að ekkert hafði verið leiðrétt. Enn voru hafðir eftir mér hlutir sem ég kannaðist ekkert við. Það sem var hins vegar merkilegra var að viðtalið hafði lengst til mikilla muna og snerist að miklu leyti um hugrenningar blaðamannsins og skoðanir hans á þeim hlutum sem ég hafði nefnt (eða átti að hafa nefnt). Sums staðar er jafnvel óljóst hvar verið er að vitna í mig og hvar blaðamaðurinn vitnar í sjálfan sig. Loks var bætt við alls konar rangfærslum um mig og annað fólk,“ segir Sigmundur Davíð.
Sigríður Dögg sendi frá sér yfirlýsingu vegna færslu Sigmundar Davíðs. Hún segir að hann haldi því ranglega fram að hún hafi ekki tekið til greina leiðréttingar sem hann gerði á viðtalinu fyrir birtingu þess. „Beinar og óbeinar tilvitnanir í Sigmund sendi ég honum í tölvupósti áður en viðtalið fór í prentun. Allar leiðréttingar hans voru teknar til greina og viðtalinu breytt í samræmi við hans óskir.“
Hún segir að tilgangur viðtalsins hafi verið að draga upp mynd af áhugaverðum og umtöluðum stjórnmálaleiðtoga. „Aðdróttanir um að ég hafi með viðtalinu ætlað að gera honum óleik eru rangar enda væri það andstætt sannfæringu minni og þeirri heiðarlegu blaðmennsku sem ég ástunda.“