Ólína Þorvarðardóttir, þingmaður Samfylkingar, segir að Framsókn hafi allt þetta kjörtímabil starfað í skjóli Sjálfstæðismanna. Þeir minni á oflátunginn Jón sterka í Skugga Sveini sem faldi sig á bak við aðra og lét digurmælin ganga þar, „en stökk svo fram þegar öllu var óhætt og hrópaði: „Sáuð þið hvernig ég tók hann piltar?““
Þetta skrifar Ólína í pistli sem viðbrögð við nýjustu fylgiskönnuninni þar sem Framsóknarflokkurinn mælist með 40%.
Sjálfstæðisflokkurinn hefur allt þetta kjörtímabil gengið fram af svo mikilli hörku og óbilgirni í stjórnarandstöðu sinni, að þess eru fá fordæmi. Með Morgunblaðið að vopni náði sú framganga áður óþekktum lægðum. En enginn getur atað aurnum lengi án þess að verða sjálfur fyrir slettunum.
Öll sú neikvæðni og aðgangsharka gegn mönnum og málefnum hefur orðið til mikils skaða fyrir almenna stjórnmálaumræðu. Misbeiting þingskapa, málþóf og vondur munnsöfnuður hefur eyðilagt stjórnmálamenninguna á Alþingi Íslendinga og dregið virðingu þingsins niður í svaðið. Þeir hafa talað niður þingið, talað niður stjórnarflokkana, talað niður sjálfa sig. Og nú er þessi aðferðafræði að hitta þá sjálfa fyrir eins og sjá má í skoðanakönnunum.
Þeir fleygðu barninu með baðvatninu.
Það furðulega er að Framsóknarflokkurinn sem hefur gengið fram með mjög áþekkum hætti skuli fljóta ofan á. Allt kjörtímabilið voru þeir í skjóli Sjálfstæðismanna – en skjótast nú fram á lokasprettinum. Þeir minna á oflátunginn Jón sterka í Skugga-Sveini sem faldi sig á bak við aðra og lét digurmælin ganga þar, en stökk svo fram þegar öllu var óhætt og hrópaði: „Sáuð þið hvernig ég tók hann piltar?“
Sá er munurinn á Framsókn og Jóni Sterka, að allir sáu til Jóns Sterka og gátu hlegið að honum. Í þinginu hefur atgangurinn verið að tjaldabaki, og almenningi er ekki með öllu ljóst hver raunveruleg framganga Framsóknar hefur verið. Þess vegna hafa þeir snúið á Sjálfstæðisflokkinn og ef marka má skoðanakannanir hafa þeir snúið á þjóðina. Þeir mælast nú með 40% fylgi.
Þetta er Ísland í dag.