Viðtal Sigríðar Daggar Auðunsdóttur, ritstjóra Fréttatímans, við Sigmund Davíð Gunnlaugsson, formann Framsóknarflokksins, hefur fengið mikið umtal og náð mikilli útbreiðslu. Meðal annars náði það á markaðsskrifstofu Kjörís sem sá sér leik á borði.
Sigríður bauð Sigmundi í bíltúr til að taka viðtalið, svokallaðan ísrúnt. Óku þau meðal annars upp á Þingvelli og gengu þar um. Hins vegar vildi ekki betur til en svo að Sigríður gleymdi að bjóða Sigmundi upp á ísinn sem hún lofaði honum.
„Það gengur auðvitað ekki að nokkur maður fari íslaus heim af ísrúnti,“ segir Guðrún Hafsteinsdóttir, markaðsstjóri Kjörís, í tilkynningu frá fyrirtækinu. Starfsmaður Kjörís var gerður út af örkinni og færði Sigmundi Davíð heila stæðu af ís í kvöld.