Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, segir einu leiðina til að bæta fylgi flokksins þá að bretta upp ermar, sækja fram og koma stefnu flokksins til skila. Stefnu sem hann segist trúa á „fram í rauðan dauðann.“
Þetta sagði Bjarni í útvarpsþættinum Sprengisandi á Bylgjunni í morgun. Bjarni var spurður út í slæmt fylgi flokksins í skoðanakönnunum en í þeirri nýjustu sem Fréttablaðið og Stöð 2 gerðu fékk flokkurinn tæplega 18% fylgi.
Bjarni sagði hreyfingar á fylginu sögulegar. Vissulega væri fylgi flokksins samkvæmt skoðanakönnunum vonbrigði.
Eina leiðin til að bregðast við væri að sækja fram og trúa á boðskapinn.
Hann sagði að flokkurinn hefði nýlega slípað stefnuna og „ég trúi á hana fram í rauðan dauðann.“
Stefnan fæli m.a. í sér að lækka skatta, efla atvinnulífið og takast á við skuldir heimilanna.
Spurður hvort þetta væri stefna sem fólk vildi, sagði Bjarni ekki hægt að fara í breytingar eingöngu til að hámarka fylgi óháð sannfæringu sinni.
„Ég hef enga trú á því að við getum leyst vanda Landspítalans, lögreglunnar, eldri borgara og öryrkja án þess að atvinnulífið taki að blómstra að nýju.“
Hann sagði mikilvægt að fara ekki á taugum og velta fyrir sér „gylliboðum sem hljóma vel í augnablikinu“.
Bjarna hugnast ekki að banna verðtryggingu. Hann segir það ekki lausnina. Hins vegar þurfi að finna aðrar leiðir og endurskipuleggja húsnæðiskerfi á næstu misserum.
Spurður um landsfund flokksins og tengsl hans við fylgistap flokksins sagði Bjarni að landsfundur væri haldinn til að kjósa forystu og álykta í ýmsum málum. Það hefði tekist vel.
Hins vegar sagði hann að umfjöllun um fundinn hefði valdið sér vonbrigðum. Í henni hefðu aukaatriði orðið að aðalatriðum. „Það mistókst að koma jákvæðum fréttum af fundinum á framfæri og ég tek það á mig.“
Hann sagðist þó ekki ætla að festast í umræðum um það sem gerðist í febrúar. Núna væru þrjár vikur til kosninga.