Árni Páll Árnason, formaður Samfylkingarinnar, segir það augljósa skýringu á litlu fylgi flokksins í skoðanakönnunum að kosningabaráttan sé í raun rétt að hefjast. Mars hafi einkennst af „þinglokaþrasi“.
Þetta kom fram í viðtali við Árna Pál í þættinum Sprengisandi á Bylgjunni í morgun.
Hann sagði að fólk hefði á undanförnum árum upplifað vonleysi og ótta og það væri skiljanlegt að það væri nú leitandi.
Spurður hvort formannsskiptin í flokknum hefðu komið of seint sagði Árni að fylgið hefði ekki sigið mikið frá landsfundi er frá væri talin síðasta skoðanakönnunin (Fréttablaðið og Stöð 2) sem væri „mjög sérstök.“ Samfylkingin mældist með 9,6% fylgi í þeirri könnun.
Þá sagðist hann hafa fært fyrir því skynsamleg rök að „róta ekki í mannavali“ í ríkisstjórn rétt fyrir kosningarnar.
Hið „hefðbundna kosningaþras“ í mars hefði gert það að verkum að seint hefði verið hægt að fara að tala við kjósendur og kynna stefnu flokksins. „Það er stærsta ástæðan,“ sagði hann um lítið fylgi. „Höfuðásýnd stjórnmálanna í marsmánuði var þras í þinginu.“
Hann sagði flokkinn standa heilan að baki forystu sinni nú.