Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri grænna, segir margt hafa áhrif á fylgistap flokksins í skoðanakönnunum. „Þetta var erfitt kjörtímabil, við misstum þingmenn, það hafa verið átök. Allt spilar þetta saman.“
Þetta sagði Katrín Jakobsdóttir á Sprengisandi á Bylgjunni í morgun.
Katrín sagði að mikill árangur hefði náðst á kjörtímabilinu en VG ætlaði að setja grunnþætti samfélagsins í forgang, s.s. heilbrigðis- og menntakerfið. Einn liður í því væri að hækka laun heilbrigðisstarfsfólks. Þar yrði sérstaklega horft á kvennastéttir. „Við sjáum að kynbundinn launamunur er enn til staðar hjá hinu opinbera og hann verður ekki lagaður nema með einhvers konar handafli,“ sagði Katrín.
VG mældist með 5,7% fylgi í síðustu könnun Fréttablaðsins og Stöðvar 2. Katrín minnti á að enn væri töluvert í kosningar sem fara fram 27. apríl.
En hvers vegna þetta fylgistap? Katrín sagði að í fyrsta lagi væri ljóst að fylgið væri á mikilli hreyfingu, aðallega í eina átt. Því væru margir flokkar að glíma við fylgistap. „Þetta var erfitt kjörtímabil, við misstum þingmenn, það hafa verið átök. Allt spilar þetta saman.“
Spurð hvort formannaskiptin hafi komið of seint í flokknum sagði Katrín erfitt fyrir sig að leggja mat á það. Línurnar hefðui verið lagðar á landsfundi, þeim hinum sama og hún var kosin formaður á. Erfitt væri að segja til hversu miklu máli skipti „hvaða karl eða hvaða kerling er í brúnni“.
Spurð um verðtrygginguna sagði Katrín að hún væri í raun að leggja sig niður sjálf - ungt fólk veldi að taka óverðtryggð íbúðalán í dag. Mikilvægt væri að beina sjónum að verðbólgunni. Verðtrygging hefði á sínum tíma verið sett á á tímum óðaverðbólgu og því ekki að ástæðulausu. Hún sagði mikilvægt að það kerfi sem tæki við verðtryggingunni væri betra en það sem fyrir væri nú.
Benti hún einnig á að margir á leigumarkaði væru í miklum vandræðum. Þeir væru að borga háa leigu og gætu ekki lagt fyrir til húsnæðiskaupa.