Árni Páll fundaði með Thorning-Schmidt

Helle Thorning-Schmidt, forsætisráðherra Danmerkur, ásamt Árna Páli Árnasyni, formanni Samfylkingarinnar.
Helle Thorning-Schmidt, forsætisráðherra Danmerkur, ásamt Árna Páli Árnasyni, formanni Samfylkingarinnar. mynd/Anna Marín Schram

Árni Páll Árnason, formaður Samfylkingarinnar – Jafnaðarmannaflokks Íslands, átti fund með Helle Thorning-Schmidt, formanni danskra jafnaðarmanna og forsætisráðherra Danmerkur, í forsætisráðherraskrifstofunni á Kristjánsborg í dag.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Samfylkingunni. Þar segir að formennirnir hafi rætt stöðu landanna tveggja. Sérstaklega hafi þau rætt um þörf fyrir fjölgun starfa og gerði Thorning-Schmidt grein fyrir nýjum tillögum dönsku ríkisstjórnarinnar um lækkun skatta og álaga á fyrirtæki í þeim tilgangi. Fram kemur að Árni Páll hafi greint frá hliðstæðum hugmyndum Samfylkingarinnar um lækkun tryggingagjalds í sama tilgangi og nýjar leiðir til að tryggja litlum og meðalstórum fyrirtækjum tryggari aðgang að ódýru lánsfé og fjárfestingarfé. Þá segir að báðir formennirnir hafi verið sammála um mikilvægi öflugs atvinnulífs sem undirstöðu norrænnar velferðar.

Ennfremur segir að Helle Thorning-Schmidt hafi farið fögrum orðum um árangur Samfylkingarinnar í glímunni við hrunið undanfarin ár og kvaðst oft hafa tekið stjórnarþátttöku Samfylkingarinnar frá hruni sem dæmi um hvernig jafnaðarmenn öxluðu byrðar af erfiðum verkefnum á örlagatímum þótt vafasamt væri að það væri til vinsælda fallið.

Formennirnir ræddu einnig stöðu evrusvæðisins og stöðu Danmerkur í því samhengi en Danir fylgja öllum skilyrðum evrusamstarfsins í sinni hagstjórn. Árni Páll kynnti hugmyndir Samfylkingarinnar um að hraða ferlinu um umsókn Íslands um aðild að ESB og fá efnislega niðurstöðu í það ferli sem fyrst. Fram kemur að Thorning-Schmidt hafi fagnað þeirri hugmynd.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert