„Ég held að staðan sé mjög sérstök í íslenskum stjórnmálum en ég hef engar þungar áhyggjur af þessari stöðu. Aðalatriðið fyrir okkur er að tala við þjóðina hvert við viljum stefna og ég er algerlega sannfærður um það að boðskapur okkur um öflugt atvinnulíf og kröftuga velferð eigi jafnmikið erindi við þjóðina nú eins og alltaf áður.“
Þetta segir Árni Páll Árnason, formaður Samfylkingarinnar, í samtali við mbl.is spurður út í fylgi flokksins í nýrri skoðanakönnun MMR sem birt var í dag en þar mælist Samfylkingin með 12,7% sem er nánast sama fylgi og í síðustu könnun fyrirtækisins. Hann bætir því við að Samfylkingin sé í það minnsta ekki að tapa fylgi á milli mánaða sem sé jákvætt en flokkurinn hlaut tæplega 30% fylgi í síðustu þingkosningum.
Bankarnir fjármagni lækkun skulda
Árni Páll kynnti í dag áherslur Samfylkingarinnar í húsnæðis-og velferðarmálum á blaðamannafundi í kosningamiðstöð flokksins við Laugaveg í Reykjavík ásamt Katrínu Júlíusdóttur, varaformanni Samfylkingarinnar og fjármála- og efnahagsráðherra, en þar er meðal annars lögð áhersla á að bankarnir „fjármagni sanngjarna lækkun skulda þeirra sem keyptu á versta tíma fyrir hrun.“
Katrín sagði á fundinum að þó margt hafi verið gert á kjörtímabilinu til þess að aðstoða skuldsett heimili á kjörtímabilinu væri ljóst að ekki hefði verið nóg að gert. Annað sem Samfylkingin leggur áherslu á í þeim efnum er að viðskiptavinir Íbúðalánasjóðs og þeir sem eru með lánsveð njóti sömu úrræða og viðskiptavinir bankanna hafi getað nýtt sér. Til þess þyrfti hins vegar aukinn fjárhagslegan stuðning frá ríkinu.
Ennfremur nefndu þau Árni Páll og Katrín meðal annars gjaldfrjálsar tannlækningar fyrir börn, nýtt og einfaldara almannatryggingakerfi og byggingu 350 nýrra hjúkrunarrýma auk nýs Landspítala. Ennfremur nýjar húsnæðisbætur sem tryggðu þeim sem leigðu sér íbúð sama stuðning og þeir sem keyptu, 2.000 nýjar leiguíbúðir í samstarfi við sveitarfélög og búseturéttindafélög og að útleiga á einni íbúð verði undanþegin fjármagnstekjuskatti og skerti ekki tekjur lífeyrisþega.
Með trúverðuga stefnu gagnvart ESB
Þá leggur Samfylkingin áherslu á inngöngu Íslands í Evrópusambandið og upptöku evru sem muni að hennar sögn lækka vexti og matvælaverð hér á landi „og verja heimilin fyrir verðbólgu og efnahagsbólum.“ Í samtali við mbl.is segir Árni Páll að Samfylkingin sé eini stjórnmálaflokkurinn sem bjóði trúverðuga leið til þess að þjóðin fái að kjósa um það hvort gengið verði í sambandið. Hann segir ýmsa aðra flokka skjóta sér undan því að ræða það hvernig reka eigi öflugt efnahagslíf í gjaldeyrishöftum og Sjálfstæðisflokkurinn sé augljósasta dæmið í því sambandi.
„Við erum með skýra leið hvert við viljum stefna og ég held að sé fólk spurt hvort það vilji öflugt atvinnulíf, samkeppnishæf lífskjör og vel launuð störf muni allir segja já. Forsenda þess að þetta sé mögulegt er afnám hafta og skýr stefna um upptöku evrunnar með aðild að Evrópusambandinu,“ segir hann að lokum.