„Stefna Framsóknarflokksins var aldrei neitt atriði í umræðum innan nefndarinnar. Ég get sagt þér það alveg hreint út. Menn nálguðust einfaldlega verkefnið með allt öðrum hætti. Þær eru það nýlega tilkomnar þessar pælingar Framsóknarflokksins um að eyða öllum þeim peningum sem úr kann að vera að spila með þessum hætti og við tökum náttúrlega enga afstöðu til þess á þessum vettvangi hvort það eigi að nota þá til þess að lækka skuldir eða reka sjúkrahús eða eitthvað slíkt.“
Þetta segir Bolli Héðinsson, fulltrúi Samfylkingarinnar í þverpólitískri nefnd um afnám gjaldeyrishafta, í samtali við mbl.is en Björn Valur Gíslason, formaður fjárlaganefndar Alþingis og þingmaður Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs, sagði fyrr í dag að í bréfi, sem nefndin um afnám gjaldeyrishafta hefur sent fjármála- og efnahagsráðherra og formönnum stjórnmálaflokkanna og birt var á vefsíðu ráðuneytisins í gær, fælist gagnrýni á kosningaloforð Framsóknarflokksins um skuldaleiðréttingu í kjölfar samninga við kröfuhafa bankanna.
„Nefndin, sem fjallar um gjaldeyrishöftin, sá ástæðu til þess að senda fjármálaráðherra bréf þar sem segir að þetta séu ótímabærara vangaveltur og það er beinlínis varað við því sem sumir flokkar hafa lofað í kosningabaráttunni,“ sagði Björn Valur í samtali við mbl.is, en bréfið, sem fjallar um stöðuna og næstu skref að mati nefndarinnar varðandi afnám haftanna, var undirritað af öllum fulltrúum í henni og þar á meðal fulltrúa Framsóknarflokksins, Sigurði Hannessyni. Í bréfinu segir meðal annars:
„Lausnir á afmörkuðum vanda innan hafta getur seinkað afnámi þeirra í heild og jafnvel ógnað fjármála- og gengisstöðugleika. Nefndin telur rétt að koma þessu sjónarmiði á framfæri á þessum tímapunkti þar sem að fréttaflutningur hefur verið af áhuga fjárfesta, m.a. lífeyrissjóða, á kaupum á hlutum í Arion banka eða Íslandsbanka. Slíkar vangaveltur eru þó með öllu ótímabærar enda getur svo veigamikil breyting innan fjármagnshafta ekki átt sér stað nema fyrir liggi með hvaða hætti þau verða afnumin í heild.“
Ekkert er hins vegar minnst á Framsóknarflokkinn í bréfinu né kosningaloforð hans. Bolli segir í samtali við mbl.is að hann geti persónulega tekið undir það með Birni Vali að ástæða sé til þess að hafa allan vara á loforðum flokksins „en það kom aldrei til umræðu í nefndinni.“ Sigurður Hannesson tekur undir það með Bolla að ekkert hafi verið rætt um stefnu Framsóknarflokksins í nefndinni eða kosningaloforð hans.