Segir loforð Framsóknar skaðleg

Kosningaloforð Framsóknarflokksins hafa skaðleg áhrif á stöðu Íslands gagnvart kröfuhöfum í þrotabú föllnu bankanna. Þetta segir Björn Valur Gíslason, þingmaður VG sem segir að fullyrðingar formanns Framsóknarflokksins um skuldaleiðréttingu í kjölfar samninga við kröfuhafa, hafi fært kröfuhöfum vopn í hendur.

Þverpólitísk nefnd um afnám gjaldeyrishafta, sendi fjármálaráðherra og formönnum flokkanna bréf þar sem undirstrikað er að afnám fjármagnshafta verði að nálgast með heildrænum hætti. Lausnir á afmörkuðum vanda innan hafta geti nálgast afnámi þeirra í heild og jafnvel ógnað fjármála- og gengisstöðugleika,“ segir í bréfinu sem er undirritað af öllum sex nefndarmönnum og er birt á vefsíðu Fjármálaráðuneytisins.

„Nefndin, sem fjallar um gjaldeyrishöftin, sá ástæðu til þess að senda fjármálaráðherra bréf þar sem segir að þetta séu ótímabærara vangaveltur og það er beinlínis varað við því sem sumir flokkar hafa lofað í kosningabaráttunni,“ segir Björn Valur. 

Hafa fært viðsemjendum vopn í hendur

„Þegar þeir íslensku stjórnmálamenn eða stjórnmálaflokkar, sem eru líklegir til að komast til áhrifa upplýsa nákvæmlega um það annars vegar hversu miklu þeir telja sig geta náð út úr samningum og hins vegar hvenær þeir ætla að gera það í síðasta lagi, þá er búið að færa viðsemjendunum vopn í hendur. Þar með eru menn búnir að mála sig út í horn í samningaviðræðum. Þess vegna sá nefndin ástæðu til þess að skrifa þetta bréf,“ segir Björn Valur

 Áttu við Framsóknarflokkinn? „Já, fyrst og fremst. Og þrátt fyrir að hann kæmist ekki til valda eftir kosningar, þá hefur þetta þegar haft skaðleg áhrif á samningsstöðu Íslands. Það er ástæða fyrir því að fáir hafa tekið undir þennan málflutning Framsóknar. Það er vegna þess að menn vita hvað er í húfi, þeir vita að það þarf að semja um málin. Þess vegna hefur meðvitað verið reynt að gera lítið úr þessari hugmynd sem slíkri, því hún er skaðleg fyrir heildarhagsmuni Íslands,“ segir Björn Valur.

„Stjórnarflokkarnir hafa alla tíð vitað að það, að loka eignirnar inni á bak við gjaldeyrishöftin, eins og gert var með lagasetningunni í mars í fyrra, er forsenda þess að hægt sé að semja um þetta.“

Björn Valur Gíslason.
Björn Valur Gíslason.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert