„Reglurnar eru mjög flóknar og ruglingslegar enda samdar af fjórflokknum sem hefur verið við völd hér á landi síðastliðin 97 ár með misgóðum árangri. Einkennilegast í öllu þessu þó er að það að vera íslenskur ríkisborgari dugar ekki til að sinna skyldu sinni sem íslenskur ríkisborgari og taka þátt í lýðræðinu,“ skrifar Guðmundur Franklín Jónsson, formaður Hægri grænna, í pistli á Húnahorninu í dag um það að vera ekki á kjörskrá.
Guðmundur hefur verið meira eða minna búsettur erlendis undanfarin ár, hann hafði ekki fært lögheimili sitt hingað til lands fyrir 23. mars, þegar frestur til þess og komast þannig á kjörskrá rann út. Af þeim sökum er hann ekki kjörgengur og þurfti að víkja úr sæti sem efsti maður á lista Hægri grænna í Suðvesturkjördæmi.
„Íslenskt ríkisfang, langfeðratal aftur í aldir og málefnaleg umræða dugar ekki til þegar fjórflokkurinn er annars vegar,“ skrifar Guðmundur. „Ég bið alla frambjóðendur Hægri grænna, flokks fólksins innilegrar afsökunar á því að sjá ekki við þessu atriði, en þetta mótlæti eflir mig og nú er ekkert annað eftir en að ná góðum árangri í komandi alþingiskosningum.“
Frétt mbl.is: „Þetta er auðvitað bölvað klúður“