„Ég mun styðja þá niðurstöðu sem formaður Sjálfstæðisflokksins kemst að. Hann hefur óskað eftir tíma til að skoða stöðu sína og við eigum að virða það. Mestu skiptir að sjálfstæðisfólk um allt land standi saman í verkefninu sem er framundan og okkur takist að tryggja að hér taki við ný ríkisstjórn með aðild Sjálfstæðisflokksins. Til þess að svo megi verða þarf flokkurinn verulega að styrkja stöðu sína frá því sem kannanir sýna.“
Þetta segir Hanna Birna Kristjánsdóttir, varaformaður Sjálfstæðisflokksins, í samtali við mbl.is vegna þeirra orða Bjarna Benediktssonar, formanns flokksins, í samtali við Ríkisútvarpið í gær að hann ætlaði að taka sér næstu 1-2 daga til þess að íhuga stöðu sína sem formaður í kjölfar skoðanakönnunar sem birtist í Viðskiptablaðinu í gær en samkvæmt henni myndi fylgi Sjálfstæðisflokksins aukast umtalsvert ef Bjarni viki úr formannssætinu fyrir henni.
Landsfundurinn valdi sér formann sem eigi að leiða flokkinn í gegnum kosningar
Hanna Birna bendir á að hún hafi ítrekað lýst því yfir að hún líti svo á að landsfundur Sjálfstæðisflokksins hafi valið sér þann formann sem leiða eigi flokkinn í gegnum þingkosningarnar sem fram fara síðar í þessum mánuði. „Það er ástæðan fyrir því að ég fór ekki aftur í framboð á síðasta landsfundi. Sú skoðun mín hefur ekki breyst, enda ekki nema nokkrar vikur síðan Bjarni fékk umboð til að leiða flokkinn áfram.“
Hún segir að vilji formaður Sjálfstæðisflokksins gera breytingar í þeim efnum núna þá muni hún að sjálfsögðu virða hans niðurstöðu og styðja hana. Formannsskipti svo skömmu fyrir kosningar væru hins vegar engin óskastaða og mikil áskorun bæði fyrir þá einstaklinga sem um væri að ræða sem og flokkinn í heild. Þá segir hún þá umræðu sem hafi skapast í kjölfar skoðanakönnunar Viðskiptablaðsins vitanlega einkennast af því hversu stutt sé í kosningar. Slíkar mælingar hafi verið gerðar áður og í raun lítið nýtt í því.
„Eini munurinn er kannski sá að andrúmsloftið nú er viðkvæmara, en hitt sem hefur líka breyst er að ég er nú í framboði til Alþingis, er varaformaður Sjálfstæðisflokksins og tilheyri þannig forystu hans. Ég hef lagt mig alla fram um að styrkja flokkinn með þeim hætti og hef haft ánægju af þeim verkefnum þó að vissulega reyni það á frambjóðendur og sjálfstæðisfólk um allt land þegar flokkurinn á undir högg að sækja.“