„Hefur aðeins þessa 1-2 daga“

Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins.
Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins. mbl.is/Ómar Óskarsson

„Bjarni hefði kannski ekki getað svarað þessu öðruvísi þó hann hafi ef til vill gengið lengra en maður bjóst við. Það sem hann vildi undirstrika var auðvitað að flokkurinn væri stærri en einn maður. Það hefði náttúrulega verið hrokafullt af honum að lýsa því yfir að hann færi hvergi en hann komst annars afskaplega vel frá þessu viðtali og fólk virðist hafa upplifað hann sem svona mannlegan og kann að hafa aukið vinsældir sínar með þessu viðtali.“

Þetta segir Einar Mar Þórðarson, stjórnmálafræðingur, í samtali við mbl.is spurður út í stöðu Bjarna Benediktssonar, formanns Sjálfstæðisflokksins, í kjölfar skoðanakönnunar sem MMR gerði fyrir Viðskiptablaðið fyrr í vikunni og bendir til þess að fylgi flokksins myndi aukast verulega ef Hanna Birna Kristjánsdóttir tæki við sem formaður. Bjarni sagði í viðtali við Ríkisútvarpið í gærkvöldi að hann ætlaði að taka sér næstu 1-2 daga til þess að ákveða hvort hann sæti sem formaður Sjálfstæðisflokksins eða segði af sér.

Gæti snúist í höndunum á Sjálfstæðisflokknum

„Framhaldið ræðst síðan bara af því hvað Bjarni hyggst gera. Hann hefur þá aðeins þessa 1-2 daga sem hann nefndi,“ segir Einar. Það komi væntanlega í ljós fram að því hvort fólk flykki sér um hann. „En það er svo aftur spurning hvort það nái til þessa almenna fylgis sem flokkurinn auðvitað þarf.“ Það er síðan spurningin hvort þetta snúist í höndunum á Sjálfstæðisflokknum og Bjarni verði að einhvers konar píslarvætti sem auki enn á óánægju með flokkinn.“

Hinn almenni kjósandi kunni þannig að fá það á tilfinninguna að skoðanakönnunin sé runnin undan rifjum Hönnu Birnu, þó ekkert bendi til þess, og að hún hafi stungið Bjarna í bakið. „Þá gæti það dregið úr vinsældum hennar,“ segir hann. Ennfremur gætu harðir stuðningsmenn Bjarna orðið „hundfúlir“ með þróun mála fari Bjarni frá við þessar aðstæður.

„Þannig að þetta ræðst allt af því hvað Bjarni gerir og síðan er mjög erfitt að lesa í það hvernig málin séu líkleg til þess að þróast hvort sem hann fer eða verður,“ segir Einar að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert