Tilgangurinn að grafa undan Bjarna

Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins.
Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins. mbl.is/Ómar Óskarsson

„Mín skoðun er sú að það eigi að gera út um svona mál á landsfundi en ekki á þessum tíma,“ segir Benjamín Jósefsson, formaður Sjálfstæðisfélagsins á Akranesi, í samtali við mbl.is spurður út í vangaveltur um það hvort Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, muni segja af sér sem formaður.

Eins og fram hefur komið birti Viðskiptablaðið í gær niðurstöður skoðanakönnunar sem gerð var af MMR en þær bentu til þess að fylgi Sjálfstæðisflokksins myndi aukast umtalsvert ef Hanna Birna Kristjánsdóttir væri formaður flokksins í stað Bjarna. Bjarni sagði í samtali við Ríkisútvarpið í gærkvöldi að hann ætlaði að taka sér næstu 1-2 daga til þess að íhuga hvort hann segði af sér sem formaður eða ekki.

„Þessi skoðanakönnun þjónar bara einum tilgangi, að grafa undan Bjarna. Það er bara þannig. Það virðast einhverjir aðrir hagsmunir en hagsmunir flokksins vera í húfi þarna,“ segir Benjamín og bætir við: „Ef menn geta ekki lagt hann á landsfundi, hvers vegna halda menn þá áfram?“

„Þetta er óheppilegt fyrir flokkinn“

„Ég styð formanninn,“ segir Þórhallur Harðarson, formaður fulltrúaráðs sjálfstæðisfélaganna á Borgarfirði eystra, spurður út í málið. Hann segist taka undir með Bjarna um að skoðanakönnun Viðskiptablaðsins sé ómakleg og komi fram á einkennilegum tíma rétt fyrir kosningar. „Þetta er óheppilegt fyrir flokkinn,“ segir hann.

„Ég veit auðvitað ekki hver stóð fyrir þessari skoðanakönnun en mér finnst einkennileg tímasetningin á henni og ég upplifi þetta bara þannig að það sé áfram verið að reyna að vega að honum,“ segir hann ennfremur. Það komi niður á möguleikum Sjálfstæðisflokksins á því að koma stefnumálum sínum á framfæri.

„Mér finnst Bjarni hafa staðið sig mjög vel sem formaður á erfiðum tímum og í þessu erfiða umhverfi,“ segir Njáll Trausti Friðbertsson, formaður Sjálfstæðisfélagsins á Akureyri. Aðspurður segir hann að sjálfsagt séu margir á því innan Sjálfstæðisflokksins hvað sé farsælast að gera við þær aðstæður sem upp séu komnar en það sé auðvitað fyrst og fremst ákvörðun Bjarna hvernig hann ákveði að bregðast við þeim.

mbl.is/Hjörtur
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert