„Ég er ekki þannig maður að ég gefi eftir í mótbyr,“ sagði Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, á fjölmennum fundi sjálfstæðismanna í Garðabæ í morgun. Hann sagði að það kæmi ekki annað til greina fyrir sig og Sjálfstæðisflokkinn en að halda áfram að berjast fyrir sigri í vor.
„Þessa fundar verður minnst fyrir að frá og með honum fór fylgi Sjálfstæðisflokksins að aukast,“ sagði Gunnar Einarsson fundarstjóri í upphafi fundar.
„Staða Sjálfstæðisflokksins er verri en við eigum að venjast,“ sagði Bjarni í upphafi fundar. Hann sagði að ýmsar ástæður væru því. Hann vék að andstæðingum flokksins og sagðist telja að sumir ættu eftir að fara í lyfjapróf.
Bjarni sagði að hann væri þakklátur sjálfstæðismönnum að hafa gefa sér svigrúm til að íhuga sína stöðu. Hann sagðist hafa fengið mikil viðbrögð við viðtalinu á RÚV. Viðbrögðin við viðtalinu hefðu komið sér á óvart. Hann hefði fengið mikla hvatningu frá flokksmönnum og einnig fólki sem stæði utan flokksins.
Bjarni sagði að þegar hann var að íhuga sína stöðu hefði hann leitað í grunninn og til þess hvers hann hefði boðið sig fram til formanns í upphafi. Hann sagðist hafa gert það vegna þess að hann vildi vinna fyrir þjóðin og gera þjóðinni gagn.
„Ég er ekki þannig maður að ég gefi eftir í mótbyr,“ sagði Bjarni. Fundarmenn mættu þessari yfirlýsingu með dúndrandi lófataki.
„Ég er ánægð með þessa ákvörðun formannsins sem ég tel að sé farsæl fyrir hann og farsæl fyrir Sjálfstæðisflokkinn,“ sagði Hanna Birna Kristjánsdóttir varaformaður á fundinum. Hún sagðist vonast eftir að flokksmenn gæfu sér tækifæri til að sinna því verkefni sem hún hefði verið kjörin til fyrir nokkrum vikum síðan, að vera varaformaður Sjálfstæðisflokksins.
Bjarni tilkynnti í viðtali við RÚV á fimmtudag að hann hefði íhugað að draga sig í hlé sem formaður Sjálfstæðisflokksins. Í kjölfarið hafa honum borist stuðningsyfirlýsingar frá félögum í flokknum.
Auk Bjarna eru frummælendur á fundinum Hanna Birna Kristjánsdóttir varaformaður Sjálfstæðisflokksins, Ragnheiður Ríkharðsdóttir alþingismaður og Vilhjálmur Bjarnason frambjóðandi flokksins í SV-kjördæmi.
Fundurinn er fjölmennur, en fundarstjóri sagði að 700-900 manns væru á fundinum.