„Þetta er ekki pólitísk deila mín við einn eða neinn, heldur er það skylda hvers og eins sem lætur sig flokkinn varða að hafa skoðun á því hvert hann er að stefna,“ segir Friðrik Friðriksson sem lét í dag af störfum formanns kosningastjórnar Sjálfstæðisflokksins í Suðvesturkjördæmi. Hann hafði áður hvatt Bjarna Benediktsson, formann flokksins, til þess að láta af embætti fyrir kosningar í ljósi slaks gengis flokksins. Friðrik segir engan ágreining á milli sín og Bjarna.
Friðrik segir að ákvörðun sín muni ekki hafa áhrif á starf flokksins í kjördæminu, enda séu kosningastjórnir flokksins myndaðar af ákveðnum baksveitum í hverju sveitarfélagi sem sinni því starfi í sjálfboðavinnu og svo séu kosningastjórar í hverju kjördæmi sem sjái um daglegu störfin auk kosningastjóra í stærri sveitarfélögum sem annist rekstur skrifstofanna.
„Upphafið að þessari atburðarás er sú að ég sá ekki hvernig flokkurinn ætlaði að endurvinna fylgishrunið sem við vorum búnir að koma okkur í,“ segir Friðrik sem segist hafa metið stöðuna fyrir rúmlega tveimur vikum síðan svo að það stefndi í óefni. Þá hefði hann sent formanninum bréf þar sem hann viðraði þá skoðun að það gæti verið betra fyrir flokkinn ef hann myndi víkja fyrir kosningarnar til þess að reyna að ná fylginu aftur upp. „Þetta var persónulegt bréf mitt til hans, en síðan hefur það undið upp á sig,“ segir Friðrik.
„Síðan varð mín persóna einhver aðalatriði í þessu, sem var ekki ætlunin nema af góðum hug af minni hálfu, að reisa flaggið,“ segir Friðrik og telur það liggja í augum uppi að það passi ekki að hann yrði skráður áfram formaður kosningastjórnar í Suðvesturkjördæmi og þess vegna hefði hann dregið sig í hlé í morgun.
„Ég vil leggja áherslu á það að ég hef stutt Bjarna í þessum formannskjörum og í prófkjörum og við erum í sama liði. Ég var hins vegar bara að horfa á niðurstöður kannana. Það er fráleitt að flokkurinn sé kominn undir 20% fylgi og á endanum hlýtur formaðurinn að bera ábyrgð á því,“ segir Friðrik og bætir við að fyrir tveimur vikum hafi engin þess teikn verið á lofti um að staðan myndi breytast til batnaðar. Síðan hafi ýmislegt gerst. „Bjarni kemur mjög sterkur fram sjálfur og sýnir á sér aðra hlið. Kannski hefur fólk gagnrýnt hann fyrir að vera of fjarlægur og vélrænn, þannig að ef honum tekst að sýna þessa hlið áfram að þá getur ýmislegt gerst í baráttunni. Ég tel að við séum í betri stöðu núna en í gær og ég er ekki í neinum ágreiningi við formann flokksins.“