„Ég hef nú sagt á einhverjum fundum að við eigum að vera opnir fyrir vinstra samstarfi en um leið eigum við ekki að útiloka eitt eða neitt.“
Þetta segir Höskuldur Þórhallsson, þingmaður Framsóknarflokksins, aðspurður út í ummæli sem hann lét falla á kosningafundi á Grenivík á dögunum þess efnis að Framsóknarflokkurinn ætti að vera opinn fyrir samstarfi á vinstri vængnum. „Ég held að það sé einstakt tækifæri til þess að mynda miðju- og velferðarstjórn,“ segir hann í Morgunblaðinu í dag.
Höskuldur bendir á að það sem skipti öllu máli sé að Framsóknarflokkurinn starfi með fólki sem er reiðubúið til að stíga þau skref sem flokkurinn hefur lagt áherslu á í kosningabaráttu sinni. „En hvort sem það er til vinstri, á miðjunni eða til hægri, það verður bara að koma í ljós eftir kosningar,“ bætir Höskuldur við.