Björgvin Guðmundsson, ritstjóri Viðskiptablaðsins, segir í yfirlýsingu sem birt var á vef Viðskiptablaðsins í gær að eðlilegt hafi verið að kanna hug kjósenda um hversu líklegir þeir væru til þess að kjósa Sjálfstæðisflokkinn ef varaformaður flokksins myndi leiða hann í kosningabaráttunni.
„Sjálfstæðisflokkurinn hefur aldrei í sögu flokksins mælst með eins lítið fylgi í skoðanakönnunum og ástæða þess hefur að einhverju leyti verið rakin til óánægju með störf formanns flokksins. Því var talið eðlilegt að kanna hug svarenda til þess hversu líklegt væri að þeir myndu kjósa Sjálfstæðisflokkinn ef varaformaður flokksins myndi leiða hann í kosningabaráttunni. Niðurstaðan var afdráttarlaus og tilefni til fréttaskrifa.
Það er fráleitt að aðrir hagsmunir en lesenda hafi ráðið ákvörðun ritstjóra Viðskiptablaðsins að birta þessa könnun. Þá er rangt, sem komið hefur fram, að einstaka starfsmenn ritstjórnar hafi starfað fyrir varaformann Sjálfstæðisflokksins og engu breytti um þessa ákvörðun að útgefandi blaðsins hafi fyrir tæpum áratug unnið við framboð hans. Markmið Viðskiptablaðsins er að segja fréttir með hagsmuni lesenda að leiðarljósi en ekki annarra,“ skrifar Björgvin í yfirlýsingu sem Viðskiptablaðið birti á vef sínum í gær.