Fylgi Sjálfstæðisflokksins mælist 27% og hefur aukist um níu prósentustig, samkvæmt niðurstöðum nýrrar skoðanakönnunar Stöðvar 2. Þetta þýðir að yrði kosið í dag fengi Sjálfstæðisflokkurinn 19 þingmenn, en hann fékk 16 þingmenn síðast.
Á móti minnkar fylgi Framsóknarflokksins um tíu prósentustig, en hann mælist þó enn stærstur, með 30,3%.
Stjórnarflokkarnir bæta sömuleiðis við sig fylgi, Samfylkingin fer úr 9,5% í 13,7% og yrðu þingmenn Samfylkingar því 9 talsins. Þeir eru 20 á yfirstandandi kjörtímabili.
Vinstri græn fara úr 5,6% í 7,9% og næðu 4 mönnum á þing en fengu 14 þingmenn í síðustu kosningum.
Fylgi Bjartrar framtíðar minnkar um tvö prósentustig milli kannana og mælist nú 6,5%. Píratar standa í stað og næðu 4 þingmönnum inn.
Gunnar Helgi Kristinsson stjórnmálafræðingur sagði í samtali við fréttastofu Stöðvar 2 að útspil Bjarna Benediktssonar í síðustu viku virðist vera að skila árangri fyrir flokkinn. Sjálfstæðismenn fái nú fyrstu góðu fréttirnar í kosningabaráttunni hingað til, en virðist bæta við sig fylgi á kostnað framsóknarmanna.
Úrtak Stöðvar tvö var 1.900 manns. Þar af náðist í 1.200 og af þeim tóku 84% afstöðu.