„Ef tap stjórnarflokkanna frá síðustu kosningum verður í kringum 30%, þá er það eitthvert mesta tap stjórnarflokka í Vestur-Evrópu frá lokum síðari heimsstyrjaldarinnar,“ segir Ólafur Þ. Harðarson, prófessor í stjórnmálafræði og forseti Félagsvísindasviðs Háskóla Íslands.
Ólafur telur að þótt kannanir gefi ágæta mynd af stöðunni geti orðið sviptingar um nokkur prósentustig á lokaspretti kosningabaráttunnar. Talsverðar sviptingar eru í væntanlegum þingstyrk flokkanna frá síðustu könnun sem Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands gerði fyrir Morgunblaðið í byrjun apríl.
Í umfjöllun um fylgisbreytingarnar í Morgunblaðinu í dag segir, að fyrri könnunin benti til að Framsóknarflokkurinn fengi sex þingmenn í Reykjavík en nýja könnunin bendir til að þeir verði þrír. Sjálfstæðisflokkurinn fer hins vegar úr fjórum þingmönnum í Reykjavíkurkjördæmunum í sjö. Þá fengi Samfylkingin nú engan þingmann í Norðausturkjördæmi.