Kaupmenn hafa hengt upp fjölda borða og veggspjalda þar sem kynntar eru hugmyndir sem taldar eru geta leitt til lægra vöruverðs ef farið verður í þær að loknum kosningum. Alls taka hátt í 400 verslanir, um land allt, þátt í herferðinni - sem stendur fram að kosningum.
Herferð SVÞ - samtaka verslunar og þjónustu, sem nefnist Aukum kaupmáttinn - kjósum lægra vöruverð” hófst í Melabúðinni fyrir nokkrum vikum.
„Samkeppniseftirlitið og fleiri óháðir aðilar hafa hvatt til þess að verndartollar á mat verði lækkaðir eða afnumdir. Rannsókn eftirlitsins sýnir að breytingar á skattaumhverfi matvæla frá árinu 2007 skiluðu sér að fullu í auknum kaupmætti almennings.
Breytingin mundi að öllum líkindum skila ríkissjóði auknum tekjum af sérvöruverslun, sem greiðir að jafnaði 25,5% virðisaukaskatt en 7% virðisaukaskattur er greiddur af matvælum,“ segir í fréttatilkynningu frá SVÞ.
Margrét Kristmannsdóttir, formaður SVÞ segir í fréttatilkynningu að félagsmenn SVÞ vilji allir vera með í herferðinni. „Mikil samstaða er í okkar hópi um að tímabært sé að fara í umbætur á því umhverfi skatta, tolla og gjalda sem hækkar, að okkar mati, að óþörfu útgjöld íslenskra heimila. Verslunarmenn hafa því hengt upp plaköt, skilti og borða við innganga og afgreiðslukassa í öllum verslanamiðstöðvum, stórmörkuðum og fjölmörgum verslunum í öllum landshlutum, með skýrum skilaboðum til kjósenda.