Vinstri menn hafa ekki hlustað nægjanlega vel á fólkið í landinu sem tók á sig miklar fórnir vegna hrunsins. Þetta segir Inga Sigrún Atladóttir, sem er í 2. sæti framboðslista Vinstri grænna í Suðurkjördæmi. Hún segir vinstri hugsun hafa borið af leið á kjörtímabilinu og mikilvægt sé að viðurkenna það.
Inga Sigrún skrifar afsökunarbeiðni, sem hún kallar svo, á blogg sitt í dag og telur upp ýmislegt sem hún segir VG ekki hafa tekist á kjörtímabilinu, þ.á.m. að tryggja efnahagslegan jöfnuð, koma í veg fyrir spillingu og leyndarhyggju og byggja upp fjármálakerfi á grunni sameignar, í anda vinstri manna.
„Okkur í Vinstri grænum tókst ekki allt sem við ætluðum að gera, við gáfum vonir sem við gátum ekki uppfyllt,“ segir Inga Sigrún. „En vegna þeirra sem treystu á okkur megum við ekki missa sjálfstraustið, við getum ekki látið stuðningsmenn okkar standa eina úti í storminum.
Við eigum að hafa styrk til að biðjast auðmjúk afsökunar en halda síðan áfram full sjálfstrausts og vonar í átt til betri framtíðar,“ segir Inga Sigrún á bloggi sínu.
Fylgi VG mælist á bilinu 8,0 til 9,3 prósent í síðustu skoðanakönnunum.