Bjarni: Höftin burt á næstu mánuðum

Heiða Kristín Helgadóttir, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson og Bjarni Benediktsson á …
Heiða Kristín Helgadóttir, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson og Bjarni Benediktsson á fundi VÍB í dag.

„Ég sé fyrir mér að hægt sé að gera þetta á næstu mánuðum,“ sagði Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, á fundi VÍB eignastýringarþjónustu Íslandsbanka í dag þegar hann var spurður um það hvenær hægt væri að afnema gjaldeyrishöftin. Bjarni sagði að búið væri að kortleggja verkefnið nú þegar þrotabúin væru tilbúin að ganga til nauðsamninga og þá gæti ferlið verið fljótlegt. Hann tók fram að fara ætti fram með ýtrustu kröfur og jafnvel beita skattlagningu á kröfuhafana. 

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Framsóknarflokksins, sagði að ríkisvaldið hefði þau tæki sem þurfi til að knýja fram um niðurstöðu í málinu og að Evrópusambandið hefði nú þegar verið með mun róttækari aðgerðir en menn veltu fyrir sér hér á landi. Hann sagði afnám hafta ekki eiga að taka langan tíma.

Heiða Kristín Helgadóttir, stjórnarformaður Bjartrar framtíðar, taldi gjaldeyrishöftin vera það stórt málefni að það þyrfti samstöðu allra flokka við úrlausn málsins. Hún sagði mikilvægt að þau yrðu afnumin hratt og örugglega þar sem þau hefðu mikil áhrif á atvinnulífið hér á landi.

Aukin tiltrú nauðsynleg

Árni Páll Árnason, formaður Samfylkingarinnar, sagði að nauðsynlegt væri að byggja upp aukna tiltrú markaðarins á framtíð hagkerfisins. Sagði hann að þó við gætum leyst einstakt vandamál eins og snjóhengjuna eða höftin, þá væri áfram hætta á miklum útflæðisþrýstingi og að skapa þyrfti stöðugleika.

Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri grænna, sagði flokkinn alltaf hafa talað fyrir skattlagningu á kröfuhafana í þessu sambandi, þó hægt væri að skoða fleiri valmöguleika í stöðunni.

Valdbeiting slæm

Að mati Smára McCarthy, kapteins Pírata í suðurkjördæmi, er valdbeiting ekki góð lausn málsins og sagði hann að markaðurinn muni alltaf bregðast við komi til ofurskattlagningar eins og kynntar hafa verið nú í aðdraganda kosninga. Hann sagði að erfitt gæti reynst að afnema höftin nema að til kæmi 20% gjaldfellingar krónunnar og þá þyrfti að skoða að efla samkeppnishæfni íslenskra fyrirtækja og auka aðdráttarafl fyrir erlenda fjárfestingu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert