Meirihluti landsmanna er sem fyrr á móti inngöngu í Evrópusambandið samkvæmt niðurstöðum nýrrar skoðanakönnunar Félagsvísindastofnunar Háskóla Íslands eða 52,2% á meðan 27,6% eru hlynnt því að ganga í sambandið. Frá þessu var greint í kvöldfréttum Ríkisútvarpsins.
Hins vegar er meirihluti fyrir því að ljúka viðræðunum við Evrópusambandið um inngöngu samkvæmt könnuninni eða 52,7% en 30,7% vilja hins vegar hætta þeim. Það þýðir að hluti þeirra sem eru andvígir inngöngu vilja klára viðræðurnar.
Fram kemur í fréttinni að þriðjungur kjósenda Sjálfstæðisflokks styðji áframhaldandi viðræður, tæplega 44% kjósenda Framsóknarflokksins yfir 90% kjósenda Samfylkingarinnar og meirihluti kjósenda Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs.