19.725 atkvæði hafa nú verið greidd utan kjörstaðar. Þar eru talin þau atkvæði sem greidd hafa verið á kjörstöðum, hjá sýslumannsembættum og í sendiráðum, sum þeirra hafa verið send á kjörstað og talin þar og því gæti einhver hluti þeirra verið tvítalinn. Alls hafa 17.385 kosið á kjörstað og 2.340 atkvæði verið send.
Alls eru 237.957 á kjörskrá og eru þessi atkvæði rúm 8% þeirra. Samkvæmt upplýsingum frá kjörstjórn utankjörstaðaatkvæðagreiðslu hafa talsvert fleiri greitt atkvæði nú, fjórum dögum fyrir kjördag, en í síðustu alþingiskosningum árið 2009 þegar jafn langt var til kjördags. Þá höfðu 5.134 kosið utan kjörfundar að kvöldi þriðjudags.
Hjá sýslumanninum í Reykjavík kusu 2.122 í dag og 263 atkvæði voru send þangað.
Nokkuð hefur borið á því að kjósendur séu ekki með gild persónuskilríki meðferðis, en kennitala þarf að koma fram á skilríkjum og þar þarf líka að vera mynd af viðkomandi. Yfirleitt er kennitala á debetkortum, en á nýrri tegundum kreditkorta er hana ekki að finna.
Vegna þessa hefur þurft að senda allnokkra kjósendur heim til að sækja önnur skilríki, samkvæmt upplýsingum frá kjörstjórn utankjörstaðaatkvæðagreiðslu.