„Þetta er leiðin í gegnum Teigsskóg sem byggist á niðurstöðu þáverandi umhverfisráðherra Jónínu Bjartmarz frá árinu 2007. Sú útfærsla hefur aldrei farið í umhverfismat. Það sem ég er að leggja til er að þessi leið verði sett í umhverfismat.“
Þetta segir Einar K. Guðfinnsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, í samtali við mbl.is en hann lýsti þeirri skoðun á framboðsfundi í Reykhólahreppi síðastliðinn sunnudag að fara ætti svokallaða B-leið vegna fyrirhugaðs vegstæðis í Gufudalssveit á sunnanverðum Vestfjörðum, út með Þorskafirði að vestanverðu og að setja ætti hana í umhverfismat.
Einar bendir á að hæstaréttardómur sem féll á sínum tíma vegna þessarar leiðar hafi ekki verið á þá leið að hún væri ósamrýmanleg umhverfissjónarmiðum. Þar hafi aðeins komið fram að við úrskurð á mati á umhverfisáhrifum mætti ekki taka mið af sjónarmiðum varðandi umferðaröryggi eins og gert var í úrskurði ráðherrans.
„Þannig að það má segja að þetta hafi fremur verið tæknilegar ástæður sem hafi orðið þess valdandi að þessi leið var dæmd ólögleg á sínum tíma. Nú er komin ný staða upp og leiðin sem um er að ræða og ég er að leggja til hefur ekki farið í umhverfismat,“ segir hann og bætir við:
„Það sem liggur fyrir er það að þessi leið er að mati Vegagerðarinnar besti kosturinn, þetta er sú leið sem heimamenn vilja að farin verði og er 3-3,5 milljörðum ódýrari en þeir kostir sem hafa verið settir í umhverfismat. Það eru með öðrum orðum öll rök að mínu mati með því að fara þessa leið og það er mikil áhyggjuefni að mínu áliti að menn skuli að óathuguðu máli ýta besta vegkostinum út af borðinu.“