Kosningaloforðin almennt dýr

Alþingishúsið.
Alþingishúsið. mbl.is/Golli

Kosningaloforð fyrir kosningarnar á laugardag eru ríkissjóði almennt dýr og gefa lítið svigrúm fyrir nauðsynlegri lækkun skulda hans. Þetta kemur fram í nýrri Hagsjá hagfræðideildar Landsbankans.

Rekstur ríkissjóðs er við að ná jafnvægi en eftir stendur að vinna úr miklum skuldum sem hlóðust upp við hallarekstur síðustu ára, segir í Hagsjánni.

Að mati hagfræðideildarinnar ganga hins vegar mörg kosningaloforð í berhögg við baráttuna gegn verðbólgunni, lækkun skulda ríkissjóðs og viðleitni til þess að koma hér á meiri stöðugleika. Það lítur því ekki út fyrir að stuðnings sé að vænta frá ríkisfjármálunum í baráttunni við verðbólguna.

Sé litið til umræðunnar í kosningabaráttunni og loforða og áherslna frambjóðenda kemur í ljós að lítil áhersla er lögð á þau viðfangsefni stjórnvalda í efnahagsmálum sem ættu að skipta mestu máli; þ.e. lækkun skulda ríkissjóðs og stöðugt verðlag. „Áherslurnar virðast hvorki beinast að rót þeirra vandamála sem helst eru uppi í hagkerfinu né þeim úrlausnum sem nauðsynlegar eru í því sambandi. Mikið er hinsvegar rætt um leiðir til að vinna á
beinum og óbeinum afleiðingum þeirra. Ef litið er til loforða þeirra framboða sem líklegt er að nái þingsæti kemur í ljós að stór hluti þeirra snýr að húsnæðismálum,“ segir í Hagsjánni.

Þá segir að það sé lítil sem engin innistæða fyrir þeim loforðum sem kalla á aukin útgjöld eða lægri tekjur ríkissjóðs og ekki er sýnt fram á hvernig greiða skuli niður gífurlegar skuldir. Það lítur því ekki út fyrir að ríkisfjármálunum verði beitt til að draga úr verðbólgu. Svo virðist sem að það sama gildi um verðbólguna og ríkisfjármálin í kosningabaráttunni, þegjandi samkomulag að ræða vandamálin sem minnst, segir m.a. í greiningu hagfræðideildar Landsbankans.

Í Hagsjánni er fjallað um kosningaloforð þeirra sex flokka sem samkvæmt könnunum 19. apríl áttu von á því að koma manni inn á þing. 

Loforð vegna húsnæðismála

Sé litið á allan pakkann sést að húsnæðismál eru áberandi. Afnám stimpilgjalda er algengasta loforðið, enda hefur því afnámi verið lofað margoft áður í kosningum, en hefur reyndar verið framkvæmt að hluta. Skattaafslættir af ýmsu tagi, bæði vegna afbogana lána og sparnaðar eru vinsælir og þá sjást líka hugmyndir að skila megi lyklum að húsnæði til lánastofnanna. Allar þessar hugmyndir fela eðlilega í sér annaðhvort samdrátt tekna eða aukin útgjöld ríkissjóðs, þar sem svigrúmið er ekki mikið fyrir.

„Mat okkar er að öll loforð sem snúa að húsnæðismálum hafi neikvæð áhrif á stöðu ríkissjóðs, m.a vegna þátttöku Íbúðalánasjóðs og stöðu hans, en einnig vegna nauðsynlegrar þátttöku ríkissjóðs þegar kallað er eftir hlutdeild lífeyrissjóðanna. Flest loforðin hafa einnig neikvæð áhrif á þróun verðbólgunnar,“ segir í Hagsjánni.

Loforð vegna atvinnumála

Hugmyndir um eflingu atvinnulífs snúa fyrst og fremst að skattaívilnunum af einhverju tagi, og margir lofa lækkun. Loforðin eru jafnan íþyngjandi fyrir ríkissjóð, en hafa hins vegar jákvæð áhrif á þróun verðbólgu. Svipaða sögu er að segja um hugmyndir um að auka ráðstöfunartekjur og bæta kjör, þær snúa fyrst og fremst að lækkun skatta og gjalda. 

„Almennt má því segja að kosningaloforð fyrir kosningarnar 27. apríl gangi í öfuga átt m.v. eitt brýnasta úrlausnarefni samtímans; að lækka skuldir ríkissjóðs. Mörg þeirra ganga að auki í berhögg við baráttuna við verðbólguna og viðleitni til þess að koma á meiri stöðugleika. En Íslendingar vita vel að loforð í kosningum eru bara orð en ekki efndir, þannig að ekki er víst að allir þeir neikvæðu spádómar sem hér eru settir fram verði að veruleika,“ segir í niðurstöðum Hagfræðideildar Landsbankans.

Sjá Hagsjánna í heild hér.


Margir flokkar lofa bótum í húsnæðismálum.
Margir flokkar lofa bótum í húsnæðismálum. mbl.is/Ómar Óskarsson
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert