„Það má ekki gerast“

Jóhanna Sigurðardóttir, Sigurðardóttir, á baráttufundinum í dag.
Jóhanna Sigurðardóttir, Sigurðardóttir, á baráttufundinum í dag. mbl.is/Golli / Kjartan Þorbjörnsson

„Við getum verið stolt af arfleifð okkar í þessari ríkisstjórn og þeir sem taka við stjórnartaumunum taka sannarlega við góðu búi þegar erfiðu verkefnunum er flestum lokið og við blasir uppskerutími og uppbygging. En það má ekki gerast að það verði helmingaskiptastjórn Framsóknar og Sjálfstæðisflokksins sem tekur við.“

Þetta sagði Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra, á baráttufundi sem Samfylkingin boðaði til í kosningamiðstöð flokksins við Laugaveg í Reykjavík vegna kosninganna á laugardaginn. Hún fór í ræðu sinni yfir verk ríkisstjórnar sinnar á kjörtímabilinu og sagði að Samfylkingarfólk gæti verið stolt af þeim. Samfylkingin hefði verið trú gildum jafnaðarstefnunnar og reynst þeim vanda vaxin sem glíma hafi þurft við.

„Það eru margir flokkar núna í framboði, sjaldan hafa þeir verið fleiri. Flestir eru þetta flokkar sem eru á vinstrihlið íslenskra stjórnmála eða í miðjunni og þetta verða margir flokkar sem ná ekki tilskyldu lágmarki en þeir geta hjálpað til við að helmingaskiptaflokkarnir, sjálfstæðismenn og Framsóknarflokkurinn komist aftur í ríkisstjórn og það má ekki gerast,“ sagði Jóhanna ennfremur og varaði einkum við kosningaloforðum framsóknarmanna sem stæðust ekki skoðun. Þeir sem kysu Framsóknarflokkinn eða Sjálfstæðisflokkinn væru að taka mikla áhættu.

Baráttumálin í góðum höndum

Jóhanna sagði að Samfylkingin væri eini flokkurinn sem gæti tryggt að þjóðarhagur væri í fyrirrúmi. Hún væri eini flokkurinn með skýra framtíðarsýn og myndi tryggja að umsókninni um inngöngu í Evrópusambandið yrði haldið áfram. Þá sagði hún blendnar tilfinningar bærast með sér nú þegar aðeins væru örfáir dagar þar til hún hyrfi af sviði stjórnmálanna. Hún vissi hins vegar að þau mál sem hún hefði borið fyrir brjósti væru í góðum höndum hjá forystumönnum Samfylkingarinnar.

Nefndi hún í því sambandi bæði Sigríði Ingibjörgu Ingadóttur, þingmann Samfylkingarinnar, og Össur Skarphéðinsson, utanríkisráðherra, sem einnig tóku til máls á fundinum og tók sérstaklega fram að hún treysti Sigríði vel fyrir þeim málum sem hún hefði sjálf barist fyrir til þessa. Þá hrósaði hún Árna Páli Árnasyni, formanni flokksins, fyrir framgöngu sína í kosningabaráttunni og sagði hann hafa staðið sig vel í henni.

„Leggjum nú nótt við dag, hvern einasta klukkutíma sem eftir er. Bretta upp ermarnar og stuðla að því að skoðanakannanirnar muni ekki rætast. Það verður miklu meira sem kemur upp úr kössunum hef ég trú á,“ sagði hún að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert