Framsókn stærst í könnun Stöðvar 2

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Framsóknarflokksins.
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Framsóknarflokksins. mbl.is/Styrmir Kári

Framsóknarflokkurinn nýtur enn mest fylgis þeirra flokka sem bjóða fram í kosningunum á laugardaginn þrátt fyrir að fylgi hans hafi dalað. Þetta sýnir ný könnun Stöðvar 2 og Fréttablaðsins. Stjórnarflokkarnir bæta við sig fylgi og eru Vinstri-græn á mikilli siglingu og mælist með 11% fylgi. Flokkurinn fékk 7,9% í síðustu könnun Stöðvar 2 og Fréttablaðsins.

Könnunin var gerð dagana 22. til 24. apríl. Samkvæmt henni bætir Björt framtíð við sig fylgi frá könnun miðlanna í síðustu viku en 7,7% þeirra sem tóku þátt myndu kjósa flokkinn ef að kosið yrði nú.

Framsóknarflokkurinn nýtur enn mest fylgis meðal kjósenda og fengi 25,6% atkvæða ef að kosið yrði nú. Það er nokkuð minna en í síðustu könnun.

Þá sögðust 23% styðja Sjálfstæðisflokkinn, færri en í síðustu könnun.

Fylgi Samfylkingarinnar eykst á milli kannana og mælist nú 14,8%. Fylgi Vinstri-grænna eykst töluvert og mælist nú 11% en var tæp 8% í síðustu könnun. 6,4% ætla að kjósa Pírata. Aðrir flokkar næðu ekki manni inn á þing ef að kosið yrði nú. Sá flokkur sem kemst næst því er Dögun sem fengi 3% atkvæða.

Ef að þetta yrði niðurstaða kosninganna fengi Björt framtíð 5 menn kjörna, Framsóknarflokkurinn 19, Sjálfstæðisflokkurinn 17, Samfylking 10, Vinstri-græn 8 og Píratar 4.

Úrtakið í könnuninni var 2699 manns og var svarhlutfallið 74%. Um þriðjungur þeirra sem tók þátt í könnuninni vildi ekki gefa upp afstöðu sína.


mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert